Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fljúgandi diskur á Mýrdalssandi og ódýrar þyrluferðir

01.04.2021 - 14:30
epa03515659 A man in fancy dress stands in the village of Bugarach, as authorities block access to the peak of Bugarach in Southern France, 21 December 2012. Bugarach is a small village of some 200 souls on the French side of the Pyrenees. New Agers and
 Mynd: EPA
Til að láta einhvern hlaupa apríl þarf að ginna viðkomandi í erindisleysu, helst yfir þrjá þröskulda. Ærsli og gaman tengjast 1. apríl allt frá miðöldum í Evrópu. Þá tíðkaðist að halda upp á nýtt ár 25. mars á vorjafndægri. Slíkar hátíðir stóðu í átta daga þannig að 1. apríl var síðasti dagur nýárshátíðarinnar. 

Eitthvað hefur dregið úr því að fjölmiðlar láti fólk hlaupa apríl, einkum nú á tímum internets, falsfrétta og upplýsingaóreiðu. Fréttablaðið flytur þó frétt í dag sem hefur öll einkenni aprílgabbs. 

Þar er greint frá því að Þórarinn Ævarsson, eigandi Pizzustaðarins Spaðans hyggist bjóða ódýrar þyrluferðir yfir gosstöðvarnar í Geldingadölum með nýstofnuðu þyrluflugfélagi sem auðvitað ber heitið Þyrluspaðinn. 

Dregur úr dárskapnum

Í frétt RÚV 1. apríl 2017 sagði að fréttastofan léti eiga sig að láta fólk hlaupa apríl það árið. Þar sagði einmitt að fjölmiðlar víða um heim hygðust gera hið sama til þess að sporna við falsfréttum. Það ár birtust þó fréttir, til dæmis í BBC sem voru dagsannar en höfðu þó yfirbragð apríl-gabbs.

Hugmyndaflugi fjölmiðla fyrr á tímum virðist þó hafa verið lítil takmörk sett. Stundum hefur gabbið snúið að því að frægt fólk sé að finna á einhverjum ákveðnum stað, að stórkostlega fáheyrt tilboðsverð sé á eftirsóttri vöru eða að eitthvað umdeilt sé við það að gerast.

Plat í fortíðinni

Aprílgabb Vísis árið 1977 átti eftir að rætast þar sem fullyrt var að skákmaðurinn Bobby Fischer hygðist sækja um íslenskan ríkisborgararétt og ætlaði að setjast hér að. 

„Fljúgandi diskur lenti á Mýrdalssandi um hádegi í gærdag,“ segir í frétt á baksíðu Tímans 1. apríl 1954. Mikill dynur var af ferð disksins er hann sveif inn yfir sandinn og lenti þar.

Fimm mínútum síðar hóf hann sig til flugs á ný og hvarf upp í skýin. Þegar menn komu á staðinn þar sem diskurinn hafði lent sást djúp dæld. „Greinargóðir menn telja að dældin, sem diskurinn skildi eftir sig nemi allt að því dagsláttu í ummál,“ segir Tíminn.

Framhald baksíðufréttarinnar er á næstöftustu síðu. Þar er í lokin sleginn varnagli, með stóru letri: „Lesendur blaðsins eru beðnir að athuga að í dag er 1. apríl og er þessi frétt í samræmi við það.“

Árið 1957 fluttu Stefán Jónsson og Thorolf Smith fréttamenn Ríkisútvarpsins fréttir af því að fljótaskipið Vanadís væri á siglingu um Ölfusá á leið til Selfoss.

Mikið var lagt í gabbið og sagt frá því í beinni útsendingu, annar fréttamannanna lét sem hann væri um borð í skipinu og hinn viðstaddur hátíðahöld á Selfossi í tilefni hinnar miklu samgöngubótar. 

Vísir sagði frá því 1. apríl 1968 að íslenska ríkið hefði fest kaup á þriðja hluta hinnar vinsælu eyjar Mallorca í Miðjarðarhafi „undir íslenska ferðamannanýlendu“ í þeim tilgangi að bæta viðskiptajöfnuð landsins við Spán.

Fullyrt er að samgönguráðuneytið hefði í bígerð að banna ferðalög Íslendinga til baðstranda í öðrum löndum.

Í sama blaði var greint frá því að ungur Keflvíkingur hefði útbúið tæki sem „vinnur starf línuvarða af það mikilli nákvæmni að engu skeikar“ og að hann vinni að gerð tækis sem geri knattspyrnudómara óþarfa. Síðar kom fram að báðar fréttirnar voru birtar „í tilefni dagsins“.

Fjölmiðlar hlaupa sjálfir apríl

Fyrir tuttugu árum voru fjölmiðlar á Íslandi látnir hlaupa apríl þegar DV birti frétt þess efnis að Samherjafrændur á Akureyri væru tilbúnir að kaupa Aðaldalsflugvöll á Húsavík til að tryggja milliliðalausan aðgang með fisk á erlenda markaði.

DV birti fréttina 2. apríl þar sem einn af stjórnendum Samherja útskýrði hvernig að málum yrði staðið sem reyndist helber tilbúningur.

Núna rétt fyrir mánaðamótin reyndi þýski bílaframleiðandinn Volkswagen fyrir sér með einhvers konar apríl-gabb eða markaðsbrellu þar sem fullyrt var að starfsemin í Bandaríkjunum fengi nú heitið Voltswagen of America.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar féllu fyrir því að þetta væri hluti af framtíðarfyrirætlunum fyrirtækisins í rafbílavæðingu en margir brugðust ókvæða við og rifjuðu upp gamlar syndir fyrirtækisins þegar það svindlaði á útblástursprófum til að fela mengun dísilbíla. 

Ekki er hægt að fullyrða hvort sá siður að láta fólk hlaupa apríl hverfur af sjónarsviðinu á næstu árum en veröldin geymir áfram fjöldann allan af hrekkjalómum sem hafa gaman af að gantast í náunga sínum.