Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hráefni tekið að berast til PCC á Bakka

31.03.2021 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Fyrsta flutningaskipið sem kemur til Húsavíkur á vegum PCC í níu mánuði, lagðist að bryggju þar í gærmorgun. Stefnt er að opnun verksmiðjunnar á Bakka á næstu vikum.

Þetta er flutningaskipið Wilson Nanjing en fréttavefurinn 640.is sagði fyrst frá komu skipsins. Farmurinn um 6000 tonn af kolum. Síðast kom skip til Húsavíkur á vegum PCC 19. júní. 

Eins og fram hefur komið standa vonir til að framleiðsla í verksmiðju PCC á Bakka hefjist á ný fyrir lok apríl. „En við eigum eftir að leysa marga lausa enda og það verður bara að ráðast núna á næstunni,“ sagði Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC Bakki Silicon, í viðtali við RÚV 18. mars.

Ráðning í störf í verksmiðjunni hafa staðið yfir undanfarnar vikur. Áætlað er að um 140 manns verði við störf þegar framleiðsla hefst þar á ný, sem er svipaður fjöldi og var þegar framleiðslu var hætt í júlí.