„Ég sagði engum frá og upplifði mikla skömm“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég sagði engum frá og upplifði mikla skömm“

31.03.2021 - 12:10

Höfundar

Í þrettán ár segist Jenný Kristín Valberg hafa upplifað sig sem ófullkomna manneskju því hún hafi ekki áttað sig á því að hún væri í ofbeldissambandi sem hún að lokum flúði. Hún segir algengt að gerandi setji sjálfan sig í fórnarlambshlutverk í sambandinu og sannfæri brotaþola um að ofbeldið sé honum sjálfum að kenna, sem veldur því að það tekur oft tíma að átta sig og leita sér aðstoðar.

Jenný Kristín Valberg er ráðgjafi hjá Bjarkarhlíð sem er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Í síðustu viku fór af stað kynningarherferð fyrir Bjarkarhlíð með yfirskriftinni: Þekktu rauðu ljósin, þar sem þolendur segja frá reynslu sinni af ofbeldissambandi. Mynskeiðin eru aðgengileg á Youtube.

Í Bjarkarhlíð er boðið upp á hjálp á flestum sviðum svo sem ráðgjöf, lögfræði- og lögregluaðstoð. Boðið er upp á greiningarviðtöl fyrir þolendur og þeim svo vísað á samstarfsaðila Bjarkarhlíðar eftir þörfum. „Hugmyndin er að þú getir komið á einn stað og fengið leiðbeiningar,“ segir Jenný Kristín í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1.

Gerandinn setur sig í fórnarlambshlutverk

Jenný Kristín segir fólk sem leiti til Bjarkarhlíðar í fyrsta sinn oft vera tvístígandi um hvort það eigi þangað erindi, því algengt sé í ofbeldissamböndum að þolendur átti sig ekki á því hve alvarlegur aðstæður séu. Ástæðan sé ekki síst sú að ofbeldismaðurinn keppist við að sannfæra makann um að hann sé sjálfur brotaþolinn, á meðan raunverulegur þolandi keppist við að lyfta gerandanum upp án árangurs.

Gerandinn setji sig þannig í fórnarlambshlutverk og viðhaldi þannig stýringu í sambandinu svo þolandinn er gjarnan ringlaður þegar hann leitar til Bjarkarhlíðar og þekkir ekki eðlileg mörk. „Þá er kannski búið að vera að segja: Ég þarf að tala hátt og berja í borð því þú hlustar ekki, og ég þarf jafnvel aðeins að hrista þig eða ýta við þér því þú ert dofin og fattar ekki hvað ég vil,“ tekur Jenný Kristín sem dæmi.

Þetta sé hluti af svokallaðri gasljóstrun, þar sem ofeldismaðurinn fær þolanda til að halda að upplifanir hans, skynjanir og tilfinningar séu rangar. Þegar þolandi til dæmis lýsi einhverju sem ósanngjörnu útskýrir ofbeldismaðurinn að svo sé alls ekki, það sé þvert á móti brotaþoli sem sé ósanngjarn.

Konur eru í meirihluta þeirra sem til Bjarkarhlíðar leita, en karlar og kynsegin fólk leitaði einnig þangað í fyrra. „Það geta allir orðið fyrir ofbeldi. það er ofbeldi í hinsegin samfélaginu, börn geta beitt foreldra ofbeldi og foreldrar börn, karlar konur og konur karla og það eru engin takmörk,“ segir Jenný Kristín.

Hótanir um ofbeldi gagnvart börnum

Sjálf segir Jenný Kristín frá eigin reynslu af ofbeldi í kynningarmyndbandi herferðinnar. Í þrettán ár segist hún hafa upplifað sig sem ófullkomna manneskju því hún hafi ekki áttað sig á því að hún væri í ofbeldissambandi. „Ég hafði ekki hugmynd,“ segir hún. „Í mínu tilfelli voru hótanir um ofbeldi gagnvart börnunum mínum. Þannig að maður teygði sig ansi langt til að reyna að halda honum góðum.“

Fyrrverandi maður hennar hafi jafnan sagt henni að ef hún tæki ekki á vissum málum gagnvart börnunum þyrfti hann að stíga inn í. „Vitandi það hvers megnugur hann var og hans skapofsi, þá reyndi maður allt sem maður gat til að fá hann til að stíga ekki inn í aðstæður.“

Skildi ekki aðstæður og gat því ekki talað um þær

Sjálf vissi hún lítið um ofbeldi í nánum samböndum á þessum tíma enda kveðst hún hafa orðið einangruð á þessum þrettán árum og ekki haft neinn til að spegla sig í. „Ég sagði engum frá og upplifði mikla skömm. Mér fannst ég vera að bregðast sem foreldri og mér fannst ég vera að bregðast sem eiginkona og ég skildi ekki þessar aðstæður sem ég var í. Og þá ertu náttúrulega ekki að tala um þær.“

Losna ekki við ofbeldið þrátt fyrir skilnað

Jenný Kristín segir algengt að fólk geri lítið úr eigin reynslu og telji aðra verr stadda en sig. Það orsakist meðal annars af því að mörk hafi færst og jafnvel máðst út með tímanum. Fólk sem leitar til Bjarkarhlíðar sé á ólíkum stað í sínu ferli. Sumir vilji skilja við ofbeldismenn og eru búnir að átta sig, sumir koma því aðrir hafa bent þeim á að það er eitthvað óeðlilegt í gangi. „Svo eru líka konur að koma sem hafa verið lausar við sinn ofbeldismann í mörg ár, það er að segja það er búið að ganga frá skilnaði, en tökin sem þeir hafa eru enn svo mikið til staðar að konur eru að kikna undan álagi.“

Hættulegasti tími í lífi brotaþola

Jenný Kristín segir að hættulegast tíminn í lífi brotaþola sé þegar hann er að reyna að losa sig úr ofbeldissambandinu. „Ég líki þessu oft við kúlu. Þetta er kúla sem tveir einstaklingar eru fastir í og þeir vilja halda henni saman,“ segir hún. „Svo um leið og einhver kemur inn og það verður eitthvað brot og þetta leysist upp, þá verður svo mikil ógn af þeim sem beitir ofbeldinu því það er búið að brjóta þennan trúnað sem ríkir á milli þessara tveggja einstaklinga.“ Í einangruninni í kúlunni ríki trúnaður og þöggun sem ofbeldismaðurinn missi svo tök á þegar kúlan er ekki lengur traust. „Þá verður reiðin og ógnin svo mikil.“

Gunnar Hansson og Margrét Blöndal ræddu við Jennýju Kristínu Valberg í Mannlega þættinum á Rás 1.

Hér er hægt að kynna sér starfsemi Bjarkarhlíðar, finna upplýsingar og leita sér ráðgjafar.