Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Léttskýjað og sólin yljar

30.03.2021 - 07:02
Stóri-Hrútur gnæfir yfir Nátthaga.
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þrýstingur á landinu hefur hækkað nokkuð ört í nótt og myndarleg hæð er að byggjast upp yfir landinu, þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Líkt og gjarnan fylgir háum þrýsting þá á loft eftir að flæða af miðhálendinu og niður í átt að sjávarmáli og því víðast hvar landátt, oft þrír til tíu metrar á sekúndu. Léttskýjað verður í öllum landshlutum í dag og sólin orðin nægjanlega hátt á lofti til þess að veita nokkur yl og hiti yfir daginn verður væntanlega á bilinu tvö til sex stig og dagurinn í dag mun því bjóða upp á fremur gott veður.

Veðurhorfur á landinu

Breytileg átt, 3-10 m/s, yfirleitt léttskýjað og hiti í kringum frostmark en tvö til fimm stig syðst. Gengur í suðvestan 8-13 norðan- og austanlands í kvöld en lægir suðvestantil.

Vestan og suðvestan 5-13 á morgun en 15-20 norðan- og norðvestanlands. Þykknar upp vestantil með súld eða lítilsháttar rigningu með köflum undir kvöld en bjartviðri um austanvert landið. Hiti að sex stigum.

Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu

Hæg norðlæg átt, bjartviðri í dag en gengur í suðvestan 5-10 og þykknar upp í fyrramálið. Lítilsháttar súld annað kvöld. Hiti tvö til sex stig að deginum en vægt frost í nótt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vaxandi vestan- og suðvestanátt og hlýnar, 8-15 m/s og hiti að fimm stigum seinnipartinn. Léttskýjað en þykknar upp eftir hádegi vestanlands með lítilsháttar súld norðvestantil.

Á fimmtudag (skírdagur):
Vestan 5-13 m/s, skýjað og dálítil súld á Vestfjörðum og með norðurströndinni en annars þurrt. Hiti tvö til átta stig yfir daginn.

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Hvöss vestan- eða suðvestanátt og súld eða rigning á vesturhelming landsins en þurrt og bjart veður eystra. Hiti fimm til tíu stig. Kólnar og fer að snjóa norðvestantil um kvöldið.

Á laugardag:
Vestan 10-18 m/s en snýst í norðan 10-18 uppúr hádegi. Él en styttir upp sunnanlands er líður á daginn. Ört kólnandi veður, talsvert frost um kvöldið.

Á sunnudag (páskadagur):
Útlit fyrir norðan hvassviðri með snjókomu eða él norðan- og austanlands en bjart með köflum suðvestantil. Áfram talsvert frost.

Á mánudag (annar í páskum):
Minnkandi norðanátt og ofankoma, víða léttskýjað um kvöldið. Kalt í veðri.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV