Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Var að grafa eftir ormum en fann steingerving

28.03.2021 - 04:11
Mynd með færslu
Miðbær Walsall á Englandi. Mynd: Derek Bennett - Geograph.org.uk
Sex ára piltur í leit að ormum og brotum úr leirmunum og múrsteinum í garðinum sínum heima í Walsall í Englandi gróf upp allt að 500 milljón ára steingerving.

Siddak Singh Jhamat segist hafa fundið þennan stein sem lítur nokkurn veginn út eins og horn, þegar hann var að leika sér með fornleifagraftarsett sem hann fékk í jólagjöf. Hann hélt að þetta væri mögulega tönn eða kló úr einhverju dýri eða jafnvel horn. Síðar komst hann að því að þetta væri brot úr kóral sem kallaður er horn-kórall.

Faðir piltsins, Vish Singh, segist í samtali við Guardian hafa orðið hissa á því sem drengurinn gróf upp. Daginn eftir fóru feðgarnir og grófu aftur á svæðinu og fundu fjöldan allan af steingerðum litlum skeljum og lindýrum. Eins fundu þeir steingerða sælilju.

Vish Singh fékk aðstoð á Facebookhópi áhugamanna um steingervinga til að bera kennsl á gripinn. Miðað við útlit hans virðist þetta vera brot úr Rugosa kóral, sem talinn er vera á milli 251 og 488 milljón ára gamall. Hann kveðst ætla að hafa samband við jarðfræðisafn háskólans í Birmingham vegna fundarins. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV