Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Synjun Útlendingastofnunar um dvalarleyfi snúið við

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kærunefnd útlendingamála hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja Rómakonu frá Moldóvu um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd. Þungar aðfinnslur voru gerðar við vinnubrögð Útlendingastofnunar í málinu.

Mat kærunefndarinnar er að Útlendingastofnun hafi ekki brugðist með nógu afgerandi hætti við þegar konan upplýsti í viðtali árið 2019 að hún ætti við hjartavandamál að stríða.

Henni hafi hvorki verið leiðbeint um að leggja fram gögn varðandi heilsufar sitt né hafi hún farið í læknisskoðun hér á landi. Auk þess hefði konan ekki haft tækifæri til að leggja fram nokkur gögn þar sem ákvörðun í máli hennar var tekin samdægurs. 

Ómögulegt sé því að vita hvort sjúkdómur hennar hafi verið það alvarlegur að rétt hefði þótt að veita henni dvalarleyfi.

Jafnframt tíundaði kærunefndin bágar aðstæður Rómafólks í heimalandi konunnar og kveður Útlendingastofnun ekki hafa lagt fullnægjandi mat á aðstæður konunnar út frá lagagrundvelli málsins. 

Fleira bendi til að ekki hafi verið vandað til verka við meðferð málsins til að mynda að eiginmaður konunnar hafi lagt fram vegabréf sitt, en hún er ekkja sem auk þess bjó við erfiðar heimilisaðstæður.

Ekki er til kerfi til að hafa uppi á fólki sem sent er til landa á Moldóvu en fréttastofa hefur fengið staðfestingu þess efnis að konan sé ekki lengur á landinu.