Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Valkvæð könnunarpróf hefjast í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrirlagning valkvæðra könnunarprófa nemenda í níunda bekk grunnskóla hefst í dag, 17. mars og stendur til 30. apríl næstkomandi. Rafræn könnunarpróf hafa verið lögð fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekkjum allt frá árinu 2016 en af því verður ekki þetta árið.

Eftir að próftökukerfið hrundi 8. mars síðastliðinn ákvað menntamálaráðherra að aflýsa könnunarprófum níundubekkinga í stærðfræði og ensku. Í kjölfarið var ákveðið að heimila nemendum sjálfum að velja hvort þeir þreyttu prófin.

Nemendum er gefinn kostur á að taka próf í íslensku, stærðfræði og ensku kjósi þau sjálf að gera það. Prófin verða lögð fyrir á pappír og Menntamálastofnun leggur áherslu það við grunnskólana að þau séu eingöngu ætluð til könnunar á stöðu nemendanna.

Skólar eru jafnframt beðnir að tilkynna stofnuninni um próftöku, áætlaðan fjölda nemenda, hvaða dag próf er lagt fyrir og í hvaða greinum. Öllum nemendum er ætlað að taka prófið á sama tíma og þau fá einkunn innan fjögurra vikna eftir að það var tekið. 

Arnór Guðmundsson upplýsir að um 310 nemendur hafi þegar skráð sig í próftöku. Hann segir að mögulega mun skráningum fjölga, en skólar hafa frest til 25. apríl til að skrá nemendur í próf. Um 4.200 nemendur eru í 9. bekkjum um land allt. 

Á vefsíðu Menntamálastofnunar segir að almenn sátt hafi verið um þá ákvörðun mennta- og menningamálaráðherra að aflýsa samræmdum könnunarprófum í 9. bekk grunnskólanna.  

Arnór Guðmundsson sagði í samtali við fréttastofu á dögunum að rafræna próftökukerfið verði ekki notað áfram. Stofnunin leggi til að hlé verði gert í tvö ár sem nýtt verði til uppbyggingar öruggs kerfis.