Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Virkni jókst í morgun en dregið hefur úr henni á ný

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson
Virkni við Fagradalsfjall jókst um klukkan 5:20 í morgun, syðst í kvikuganginum sem liggur milli fjallsins og Keilis. Óróahviða mældist þá á svæðinu en dregið hefur úr henni. Virknin er mjög staðbundin syðst í ganginum og er líklega til marks um stækkun gangsins, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar. 

Klukkan 05:52 mælist skjálfti sem var 3,0 að stærð. Upptök hans voru 2,4 kílómetra suðsuðaustur af Fagradalsfjalli. Annars var nær tíðindalaust á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í nótt.

Um 2.700 skjálftar mældust á svæðinu í gær, mánudag, frá miðnætti til miðnættis, litlu færri en dagana þar á undan. Helsti munurinn er sá að engir meiriháttar skjálftar urðu á svæðinu í gær og einungis átta skjálftar mældust 3,0 eða stærri.

Þó að mánudagurinn hafi virst með rólegasta móti þýðir það ekki að skjálftahrinan mikla, sem hófst 24. febrúar, sé í rénun. Það sést glöggt af þeim mikla fjölda smáskjálfta sem mældist í gær. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúrvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands, sagðist í gær búast við því, að jarðskjálftavirknin haldi áfram en verði kaflaskipt.