Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Snarpir vindstrengir við fjöll á morgun

09.03.2021 - 07:18
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Kári Hallbjörnsson
Útlit er fyrir hægt vaxandi norðaustanátt og strekkingsvind nokkuð víða seinni partinn, samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Með fylgir úrkomusvæði og má búast við rigningu eða snjókomu á austurhelmingi landsins, en þurrt að kalla vestanlands. Hiti verður víða nálægt frostmarki, en að 5 stigum sunnanlands.

Í kvöld og í nótt bætir meira í vind og á morgun er víða gert ráð fyrir allhvassri norðanátt, en síðdegis er spáð hvassviðri eða stormi um landið norðvestanvert síðdegis.

Á morgun verður væntanlega úrkomulítið sunnanlands, annars víða slydda eða snjókoma, en rigning austast á landinu. Hiti kringum frostmark, en frostlaust með suður- og austurströndinni. Á morgun þarf því að gera ráð fyrir snörpum vindstrengjum við fjöll í flestum landshlutum, einkum um landið vestanvert. Einnig má búast við hríðarveðri nokkuð víða, sérílagi á fjallvegum, en úrkomulítið sunnanlands.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það væri hyggilegt fyrir ferðalanga að hafa veður morgundagsins í huga þegar ferðalög eru skipulögð. Eftir hagstæða tíð undanfarið, minni veturinn á sig. Þá segir að hér á landi sé mars flokkaður sem vetrarmánuður, enda sýni veðurmælingar að hann skeri sig ekki frá hinum vetrarmánuðunum þremur desember, janúar og febrúar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir