Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óskar eftir skýringum frá Menntamálastofnun

09.03.2021 - 13:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir algjörlega óásættanlegt að nemendur í níunda bekk hafi í gær orðið fyrir óþægindum vegna tæknilegra vandamála í samræmdum prófum. Menntamálstofnun þurfi að úrskýra hvað fór úrskeiðis. Nemendur taka prófið aftur á næstu tveimur vikum.

„Framkvæmdin 2019 og 2020 hún gekk vel, hins vegar er það algjörlega óásættanlegt að nemendur þurfi að lenda í svona stöðu,“ sagði Lilja í morgun í samtali við fréttastofu. „Við höfum unnið að því í ráðuneytinu að endurskipuleggja allt þetta ferli og það er núna í kostnaðarmati. Það fór af stað vinna í ráðuneytinu um þetta og við erum bara nokkuð bjartsýn á að þetta komi ekki fyrir aftur.“

Mikið álag verður á tölvukerfi þegar allir níundu bekkingar landsins taka prófið á sama tíma. Lilja segir að þegar þetta gerðist síðast árið 2018 hafi hún brýnt það fyrir Menntamálastofnun að það væri einhver varaleið til að fara ef kerfið myndi hrynja. „Nú þarf ég að fá útskýringar á því hvers vegna sú varaáætlun gekk ekki eftir.“

Nú eru margir nemendur sem kvíða þessum prófum. Er þetta ekki hreinlega vanvirðing gagnvart þessum nemendum að þetta fari svona? „Jú, mér finnst það og þess vegna tek ég málið aftur til mín eins og ég gerði á sínum tíma, ég hef lagt ríka áherslu á það að framkvæmdin gangi vel. Stofnunin þarf að skýra það betur út hvað fór úrskeiðis.“