Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nýtt kerfi fyrir samræmdu prófin nauðsynlegt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forstjóri Menntamálastofnunar segir nýtt prófakerfi fyrir rafræn samræmd próf nauðsynlegt. Með núverandi kerfi náist ekki að uppfylla þau viðmið sem kveðið er á um í Aðalnámskrá grunnskóla.

Samræmd próf hafa verið lögð fyrir rafrænt frá árinu 2016, en þegar íslenskuprófið var lagt fyrir nemendur í 9. bekk í gær réð rafræna próftökukerfið ekki við það.  Þetta var í annað skiptið á þessum fimm árum sem það gerist. Kerfið býður eingöngu upp á fjölvalsspurningar og Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunar segir að það sé ekki í samræmi við það fjölbreytta námsmat sem kveðið er á um í Aðalnámskrá grunnskóla. 

„Það eru mjög takmarkaðir möguleikar í þessu kerfi sem þýðir það að við getum ekki þróað prófið með þeim hætti sem við viljum sem er að prófa fjölbreytta hæfni og koma til móts við ólíkar þarfir og getu nemenda.“

Arnór segir að hann hafi rætt við menntamálaráðherra í dag um hvað hafi farið úrskeiðis í framkvæmd prófsins í gær. „Við finnum að það er metnaður í ráðuneytinu til að innleiða nýtt kerfi og nýtt námsmat.“

Gætuð þið metið fjölbreyttari hæfni ef próftökukerfið væri með öðrum hætti? „Já, algjörlega og við höfum sagt að við þurfum nýtt prófakerfi til að geta staðist kröfur og væntingar.“

Menntamálaráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að það væri óásættanlegt að nemendur hefðu lent í þessari stöðu. Innan ráðuneytisins hefði verið unnið að endurskipulagningu ferlisins og það sé nú í kostnaðarmati. Það væri hins vegar Menntamálastofnunar að útskýra hvað fór úrskeiðis.