Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vissu ekki um smitið fyrr en á hádegi í gær

08.03.2021 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Starfsmenn á Landspítalanum sem vinna á sama gangi og starfsmaðurinn sem greindist með breska afbrigði kórónuveirunnar vissu ekkert um smitið fyrr en þeir fengu tilkynningu á hádegi í gær um að koma í sýnatöku.

Fjöldi starfsmanna Landspítalans fór í sýnatöku í gær: 

„Sýni sem voru tekin í gær eru neikvæð og nú erum við bara að halda áfram að skima fólk í dag,“ segir Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítalanum. 

Hvenær fékk spítalinn að vita af því að starfsmaður hefði greinst?

„Ég frétti af þessu rétt eftir sex, sem sagt rétt eftir klukkan 18 á laugardeginum.“

Tugir manna á Landspítalanum eru í sóttkví og fara þeir aftur í sýnatöku að henni lokinni. Eins hafa sjúklingar verið skimaðir.

Fór grunlaus í fjölmenna fermingarveislu

Starfsmaðurinn vinnur á gangi A3 í Fossvogi og er líka með starfsstöð annars staðar. Á þeim gangi eru margar deildir; svefnrannsókna-, ofnæmis-, lungna- og smitsjúkdómagöngudeildir. Mikill umgangur er á þessum gangi.

Þótt Má hafi verið gert viðvart um smitið um sexleytið á laugardeginum fengu að minnsta kosti sumir starfsmannanna á þessum gangi ekkert að vita fyrr en þeir fengu sms klukkan tólf í gær um að þeir ættu að koma í sýnatöku klukkutíma síðar.

Fréttastofa talaði við starfsmann í morgun sem var alveg grunlaus og fór í fjölmenna fermingarveislu á laugardagskvöldið. Már segir að þegar fréttist af smiti fari umfangsmikið viðbragð í gang: 

„Sem að felur það í sér að það er ekki hægt að tala við alla heldur er rætt við stjórnendur deilda og starfseininga sem að finna út hverjir hafa verið að vinna. Og síðan eru send skilaboð til viðkomandi starfsmanna. Það er nánast óvinnandi vegur fyrir það fólk sem er að vinna um helgar að hringja í hvern og einn starfsmann en það er hins vegar haft samband við ansi marga.“ 

Í dag fara gestir á tónleikum í Hörpu á föstudagskvöldið í sýnatöku. Smitaði starfsmaðurinn á Landspítalanum var þeim tónleikum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Már Kristjánsson.