Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja forða Byggðasafni Dalamanna úr ónýtu húsnæði

Mynd með færslu
Staðarfell í Dölum. Mynd: RÚV

Vilja forða Byggðasafni Dalamanna úr ónýtu húsnæði

08.03.2021 - 09:12

Höfundar

Dalamenn vilja færa byggðasafn sitt úr ónýtu húsnæði á Laugum í Sælingsdal að Staðarfelli á Fellsströnd. Á annað hundrað milljónir króna myndi kosta að breyta Staðarfelli í byggðasafn. Staðarfell hefur ekki verið í notkun í fjögur ár, síðan SÁÁ flutti starfsemi sína þaðan 2017.

Óviðunandi húsnæði á Laugum

Byggðasafn Dalamanna á Laugum í Sælingsdal var lokað allt síðasta ár, en safnið hefur verið staðsett þar allt frá stofnun fyrir rúmlega fjörutíu árum. Dalamenn hafa síðustu mánuði átt í viðræðum við ríkið um að flytja safnið að Staðarfelli. Í bréfi sveitarstjóra til mennta- og menningarmálaráðuneytis frá því í febrúar segir að húsnæði byggðasafnsins á Laugum sé úr sér gengið og henti ekki nútímakröfum fyrir safnastarfsemi. Þá sé þar vatnstjón yfirvofandi vegna lélegra lagna og mögulegra flóða vegna leysingavatns. Það sé óviðunandi áhætta með tilliti til varðveislu safnmuna.

Kostar á annað hundrað milljónir að breyta Staðarfelli

Dýrara yrði að fara í nýbyggingu en að laga Staðarfell að hlutverki byggðasafns. Nýbygging yrði raunar utan fjárhagslegs bolmagns fámenns samfélags. Það myndi kosta um 125 milljónir að breyta Staðarfelli í byggðasafn, þar af fælist þriðjungur kostnaðar í því að gera húsið aðgengilegt. Sveitarfélagið vill vita hve mikið ríkið getur lagt til þessara breytinga.

Staðarfell stendur á Fellsströnd í Dölunum. Elsti hluti aðalbyggingarinnar á þessu forna höfuðbóli var reist 1912 og var húsmæðraskóli starfræktur þar í rúm fimmtíu ár, þar til SÁÁ hóf þar starfsemi endurhæfingarstöðvar 1980. SÁÁ var þar um þónokkurt skeið en flutti þaðan 2017 og hefur Staðarfell staðið autt síðan. Það var auglýst til sölu hjá Ríkiskaupum 2018 en er það ekki lengur. 

Byggðasafn Dalamanna var stofnað af Magnúsi Gestssyni. Hann hóf að safna munum fyrir safnið fyrir um hálfri öld og sinnti störfum við safnið til 1998, þá tæplega níræður. Safnkostur safnsins hefur meðal annars að geyma baðstofu frá Leikskálum í Haukadal. Í henni var búið til 1973 en hún var tekin niður í heild sinni nokkrum árum síðar og sett upp á safninu.

Fréttinni hefur verið breytt: Byggingarár Staðarfells var 1912, ekki 1927 eins og upprunalega stóð. Það var hins vegar fyrsta starfsár húsmæðraskólans að Staðarfelli. 

Tengdar fréttir

Innlent

Tækniminjasafn Austurlands hyggst safna 10 milljónum

Stjórnmál

Íslensk menningar­verð­mæti í hættu