Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Þetta er algjört einsdæmi“

Mynd: EPA / EPA

„Þetta er algjört einsdæmi“

08.03.2021 - 19:52
Óhætt er að segja að alþjóðlega skíðagöngusamfélagið nötri vegna atviksins undir lok 50 kílómetra göngu karla á HM í Oberstdorf í gær. Gunnar Birgisson, skíðagöngusérfræðingur RÚV, segir málið algjört einsdæmi, en Norðmenn hafa ekki gefið upp alla von um að vinna áfrýjunarmál.

Johannes Klæbo frá Noregi kom fyrstur í mark eftir mikinn atgang þar sem stafur Rússans Aleksandrs Bolshunov brotnaði. Bolsunov féll niður í þriðja sæti á eftir Norðmanninum Emil Iversen en þegar Klæbo var svo dæmdur úr leik var Iversen krýndur heimsmeistari.

„Þetta er algjört einsdæmi í skíðagöngunni, og jafnvel í íþróttasögunni almennt, að keppandi sé sviptur heimsmeistaratitli fyrir eitthvað annað en lyfjamisferli,“ segir Gunnar Birgisson sem lýsti göngunni á RÚV í gær. 

Klæbo strunsaði í burtu þegar niðurstaðan varð ljós og áfrýjun norska sambandsins var vísað frá í gær. Norðmenn hafa hins vegar annað tækifæri til að áfrýja fram á miðjan dag á morgun. 

„Norðmennirnir telja sig hafa nokkuð gott mál í höndunum,“ segir Gunnar en í myndbandinu sem fylgir fréttinni fer hann ítarlega yfir það sem gerðist í göngunni í Oberstdorf í gær.