Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Slökkviliðið fór í tíu COVID-19 tengd útköll í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór í tíu COVID-19 tengda sjúkraflutninga síðasta sólarhring. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu slökkviliðsins í morgun.

Þann 4. mars síðastliðinn kom fram á síðu slökkviliðsins að þá hefði tekið að bætast við slíka flutninga en að þeim hafði fækkað mjög fram að því.

Varðstjóri hjá slökkviliðinu segir í samtali við fréttastofu að ekki sé hægt að fullyrða að fjölgun flutninga í gær tengist smitinu sem kom upp um helgina. Allrar varúðar sé  þó gætt.

Allur grunur er þó meðhöndlaður líkt og sú sé raunin. Sérútbúinn bíll er notaður við flutningana, starfsmenn eru í sérstökum hlífðarfatnaði og bíllinn sótthreinsaður af kostgæfni milli flutninga.