Ekki leyfilegt að keyra um með særandi bílnúmer

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Ekki leyfilegt að keyra um með særandi bílnúmer

08.03.2021 - 07:30

Höfundar

Bílnúmer fyrir ökutæki eru eins og kennitölur fyrir fólk, bílar fá þau þegar þeir fara á göturnar og hafa allt sitt „líf“ eða þangað til þeir fara í förgun og númerin eru ekki endurnýtt.

Fyrstu heimildir um bílnúmer á Íslandi eru frá 1914, samfelld bílasaga Íslendinga hefst 1913 en fyrsti bíllinn var fluttur inn 1904. Í dag eru bílnúmer framleidd á Litla-Hrauni og gildir þá einu hvort um sé að ræða þessi hefðbundnu eða einkanúmer. 

„Það er mjög vinsælt að kaupa sér einkanúmer,“ segir Þórhildur Elínardóttir hjá Samgöngustofu. „Í rauninni eru engar hömlur á því þannig lagað. Ef orðið kemst fyrir á plötunni og það er ekki meiðandi fyrir umhverfið sem getur komið upp. Fólk hefur alls konar smekk svo það er hægt að sækja um hvað sem er. En það sem er metið mjög hatursfullt til dæmis, við höfum heimild til að hleypa því ekki í gegn.“ 

Rúnar Sigurjónsson hjá Fornbílaklúbbi Íslands, sem keyrir um með einkanúmerið Rúnar S, segir ákveðna menningu í einkanúmerunum en hún sé ekki eins og hún var þegar bílnúmer sögðu meira en þau gera í dag og gengu jafnvel kaupum og sölum. 

„Foreldrar mínir áttu lág Reykjavíkurnúmer; faðir minn átti R 18018 og móðir mín R 21012 og þetta þóttu svolítið flott númer. En svo voru náttúrulega fjögurra, þriggja og tveggja stafa númer og þau þóttu enn flottar og oft gengu númer jafnvel kaupum og sölum fyrir fullt af peningum,“ segir Rúnar.