Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ætlar að halda baráttunni áfram

08.03.2021 - 09:07
epa09060175 Svetlana Tikhanovskaya, a Belarusian human rights activist and politician who ran for the 2020 Belarusian presidential election as the main opposition candidate, poses for the photographer during the 19th edition of the FIFDH, in Geneva, Switzerland, 07 March 2021. The 19th edition of the FIFDH will be principally in remotely due to the coronavirus (COVID-19) pandemic.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
Svetlana Tíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi. Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
Svetlana Tíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, kveðst staðráðin í að halda áfram baráttu sinni gegn Alexander Lúkasjenkó og stjórn hans. 

Tíkanovskaja bauð sig fram gegn Lúkasjenkó í forsetakosningum í fyrra, en flýði land þegar forsetinn var lýstur sigurvegari og fékk hæli í Litáen. Á föstudag barst stjórnvöldum þar krafa um að þau framseldu hana til Hvíta-Rússlands, en þeirri beiðni var samstundis hafnað. 

Tíkanovskaja, sem stödd er í Genf, var að því spurð hvort hún teldi öryggi sínu ógnað í ljósi þessarar framsalsbeiðni, en hún kvaðst vart líta svo á og að hún myndi halda áfram baráttu sinni. Hún væri sannfærð um að stjórn Lúkasjenkós færi á endanum frá, því hún sætti miklum þrýstingi innanlands sem utan.