Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Útflutningur frá Kína eykst um 60 prósent milli ára

07.03.2021 - 06:26
epa07195280 Workers assemble electronic connectors at a DEREN Electronics production site in Tiegang Industrial Park, Heshan City, Guangdong Province, China, 28 November 2018. Heshan City is situated in the Pearl River Delta economic zone which is one of China's leading economic regions and a major manufacturing centre.  EPA-EFE/FREDDY CHAN
 Mynd: epa
Útflutningur á kínverskri framleiðslu af öllu tagi hefur aukist gríðarlega síðustu mánuði og hefur ekki verið meiri í ríflega tvo áratugi. Þetta má lesa úr opinberum hagtölum sem birtar voru eystra í dag. Þær sýna jafnframt að innflutningur hefur líka aukist mikið eftir að kínverskt samfélag og atvinnulíf losnuðu úr viðjum kórónaveirunnar sem lamaði meira og minna allar atvinnugreinar á stórum svæðum mánuðum saman í fyrra.

Útflutningur fyrstu tveggja mánaða ársins var rúmlega 60 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra og innflutningur jókst um 22 prósent milli ára. Þó er þess að gæta að útflutningur var 17 prósentum minni í fyrra en árið þar áður og innflutningur fjórum prósentum minni.

Mikil aukning varð á útflutningi hvers kyns rafeindatækja og líka á textílvörum, þar á meðal grímum og öðrum hlífðarklæðnaði, en eftirspurn eftir hvoru tveggja jókst mjög víða um heim í faraldrinum vegna aukinnar heimavinnu og mikillar þarfar fyrir smitvarnir.

Viðskiptajöfnuður Kína var jákvæður um rúmlega 103 milljarða Bandaríkjadala á þessum tveimur mánuðum, sem svarar til þrettán þúsund og þrjú hundruð milljarða íslenskra króna.