Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tugir fórust og hundruð særðust í Miðbaugs-Gíneu

07.03.2021 - 22:50
Tugir fórust og hundruð slösuðust þegar röð sprenginga varð í eða nærri bækistöð hersins í borginni Bata í Miðbaugs-Gíneu sunnudaginn 7. mars. Talið er að vanrækslu og hirðuleysi við geymslu dýnamíts sé um að kenna.
 Mynd: AP
Minnst tuttugu létu lífið og hundruð slösuðust þegar nokkrar öflugar sprengingar urðu í eða nærri bækistöð hersins í borginni Bata í Miðbaugs-Gíneu í dag. Ekki er vitað með vissu hvað olli sprengingunum en yfirvöld útiloka að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Forseti landsins, Teodoro Obiang Nguema Mbasogo, sagði í kvöld að orsök sprenginganna hafi verið vanræksla og ótryggur frágangur dýnamíts í vopnageymslum hersins í herstöðinni í Bata, fjölmennustu borg Miðbaugs-Gíneu.

Yfir fjögur hundruð manns særðust í sprengingunum og heilbrigðisráðuneyti landsins sendi út ákall á Twitter, þar sem óskað var eftir sjálfboðaliðum úr heilbrigðisstéttum til að aðstoða starfsfólk þriggja stærstu sjúkrahúsanna í Bata. Jafnframt var sent út ákall til almennings um að gefa blóð, vegna hins mikla fjölda sem slasaðist. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV