Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þúsundir mótmæltu sóttvarnaaðgerðum í Vínarborg

07.03.2021 - 02:15
An officer blocks a street when police is on the hunt for an attacker after several people have been injured in a knife attack on the streets of Vienna, Austria, Wednesday, March 7, 2018. (AP Photo/Ronald Zak)
Á miðvikudag í síðustu viku réðist hnífamaður að vegfarendum í miðborg Vínar með hníf á lofti og særði hjón og dóttur þeirra lífshættulega. Hann komst undan.  Mynd: AP
Þúsundir hópuðust saman í Vínarborg á laugardag til að mótmæla sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Nokkur úr hópi mótmælenda voru handtekin fyrir brot á sóttvarnareglum og lögum um almannafrið, að sögn lögreglu. Stór hluti mótmælenda virti hvorki fjarlægðarmörk né tilmæli um grímunotkun, auk þess sem mun fleiri voru saman komin en sóttvarnareglur leyfa. Frelsisflokkurinn, flokkur yst á hægri væng stjórnmálanna, boðaði til mótmælanna í dag, eins og hann hefur gert nokkrum sinnum áður.

Tilslakanir í febrúar en takmarkanir enn í gildi

Slakað var á ýmsum sóttvarnaaðgerðum í Austurríki í febrúar og skólum, söfnum, og flestum verslunum heimilað að hefja starfsemi á ný. Mótmælendur lýstu hins vegar óánægju sinni með þær takmarkanir sem enn eru í gildi, svo sem um lokun skemmtistaða, veitinga- og kaffihúsa, og skilyrði um að skólafólk þurfi að undirgangast COVID-skimun til að fá að sækja tíma í staðkennslu.

Herbert Kickl, sem var innanríkisráðherra Austurríkis þar til Frelsisflokkurinn hrökklaðist úr stjórninni 2019, ávarpaði fundargesti og sakaði ríkisstjórnina um að „dansa á barmi geðveikinnar“ í aðgerðum sínum. Mótmælendur kölluðu eftir afsögn Sebastians Kurz, kanslara, og kyrjuðu slagorð gegn fjölmiðlum, sem þeir kölluðu „Lygapressu.“

Smitum fjölgar á nýjaleik

Nokkuð hafði dregið úr nýsmitum í Austurríki þegar síðustu tilslakanir voru gerðar, en síðustu vikur hefur þeim fjölgað eilítið á ný og voru rúmlega 2.500 í gær. Heilbrigðisráðherra Austurríkis, Rudolf Anschober, segir að hið smitnæma breska afbrigði kórónaveirunnar sé nú ráðandi í landinu og dreifi sér með uggvekjandi hraða. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV