Þróa karfasnakk og þaravín á meðan engir eru gestirnir

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Þróa karfasnakk og þaravín á meðan engir eru gestirnir

07.03.2021 - 20:10

Höfundar

Ljósin eru slökkt, útidyrahurðin læst og salurinn tómur á veitingastaðnum Bjargarsteini í Grundarfirði. Og þannig hefur það verið um nokkra hríð - sem þó þýðir ekki að þar sé setið auðum höndum. Í bakhúsi er matreiðslumaður að brasa, hann er að búa til karfaroðssnakk.

Karfaroðssnakk þróað áfram

Gunnar sem hefur fengið styrki til að þróa áfram nokkrar matvörur, þar á meðal karfaroðssnakkið. „Við höfum notað þetta í skraut og fólki hefur líkað að naga þetta yfir réttunum, svona endar á þessu. Þannig að við fórum aðeins að leika okkur með þetta að marinera og sjá hvað kemur útúr því og það hefur líkað ágætlega.“ Næsta skref er svo að klára að útbúa pakningarnar og koma vörunni á markað. „Þetta verður kannski ekkert risadæmi, en má líka vera lítið,“ segir Gunnar.

Lokuðu vegna samkomutakmarkanna

Gunnar hefur þróað áfram matvörur á meðan staðurinn er lokaður en hann lokaði eftir að ferðamönnum fækkaði mikið og samkomutakmarkanir settu eigendunum þröngar skorður. „Og í haust þá sáum við það að hafa tíu manns inn á stað, það myndi aldrei ganga. Maður verður frekar tilfinningaríkur á að ræða þetta en það er bara staðan.“  

Vildu nýta tímann í eitthvað annað

„Það var aldrei nein spurning um að draga saman. Nú er einmitt tíminn til að hugsa eitthvað nýtt - og vinna með það sem þú hefur kannski verið að gera. Það var aldrei þannig að við myndum hætta, allavega ekki eins og staðan er í dag. Við horfum fram á bjartari tíma, eins og aðrir,“ segir Gunnar. Og það er ekki bara karfaroðssnakk, heldur einnig sölsnakk og þaravín.