Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.
Skjálfti upp á 3,8 um lágnættið
07.03.2021 - 01:23
Nokkuð kröftugur skjálfti reið yfir Reykjanesskagann klukkan 00.42. Mældist hann 3,8 að stærð og fannst víða á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorni landsins. Upptök hans voru á ríflega 6,6 kílómetra dýpi, um kílómetra aust-suðaustur af Fagradalsfjalli. Þrír aðrir skjálftar, 3,0, 3,1 og 3,3 urðu um lágnættið, sá fyrsti rétt fyrir hálf eitt en hinir tveimur og sjö mínútum síðar.
Það hefur því færst aukinn kraftur í skjálftavirknina á ný, eftir að heldur hafði dregið úr henni síðustu klukkustundina fyrir miðnætti. Talsverð skjálftavirkni var á svæðinu fram undir ellefu á laugardagskvöld og mældust 24 skjálftar af stærðinni 3 eða stærri í gær, frá miðnætti til miðnættis. Skjálftavirkni næturinnar og síðasta sólarhrings hefur nær alfarið verið bundin við Fagradalsfjall og næsta nágrenni þess.