
Ríkislögmaður útvistaði dómsmáli ráðherra gegn Hafdísi
Sjaldgæft að ríkið höfði mál
Mál íslenska ríkisins og Lilju Alfreðsdóttur gegn Hafdísi Helgu Ólafsdóttur er að mörgu leyti óvenjulegt. Fyrir það fyrsta gerist það örsjaldan að ríkið höfði mál, og þá sérstaklega gegn einstaklingum. Ríkislögmaður er sá sem rekur dómsmál fyrir ríkið og stofnanir þess, oftast er það vörn ríkisins, en embættið annast einnig sókn þeirra mála sem ríkið höfðar á hendur öðrum. Í þessu tilviki nýtti ríkislögmaður lagaheimild til að útvista málinu og er það því rekið af lögmanni utan stjórnsýslunnar. Hafdís kærði ráðningu Páls Magnússonar í stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins til kærunefndar jafnréttismála sem úrskurðaði síðasta sumar að Lilja hafði brotið jafnréttislög með ráðningunni.
Skrifstofustjóri ráðuneytis ríkislögmanns
Ráðherra, og íslenska ríkið, stefndi Hafdísi í júlí og krafðist þess að héraðsdómur mundi ógilda úrskurð kærunefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er það mjög fátítt að ríkislögmaður útvisti málum, en fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Embættið heyrir beint undir forsætisráðuneytið, þar sem Hafdís er skrifstofustjóri, og er það meðal annars tekið til greina í þessu tilviki. Þegar málum er útvistað er ráðinn lögmaður utan stjórnsýslunnar til að reka málið og eru þóknanir hans þá ákvarðaðar sérstaklega.
Enginn vill tala um dóminn
Lilja tapaði málinu fyrir héraðsdómi á föstudag og samdægurs var tekin ákvörðun um að áfrýja til Landsréttar, en áfrýjunarfrestur er fjórar vikur. Héraðsdómur hafnaði kröfu ráðherra um að ógilda úrskurð kærunefndarinnar og ríkið greiðir allan málskostnað Hafdísar, fjóra og hálfa milljón. Lilja hefur ekkert tjáð sig um niðurstöðuna og hafa fengist þær upplýsingar frá ráðuneytinu að hún ætli ekkert að gera það á meðan málið er í áfrýjunarferli fyrir Landsrétti. Það ferli er tímafrekt og getur verið allt frá hálfu og upp í heilt ár. Fréttastofa hefur ekkert náð í Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, síðan dómurinn féll, þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir og beiðnir um viðtal. Þá hefur forsætisráðherra, sem er sömuleiðis ráðherra jafnréttismála, heldur ekki viljað veita viðtal.