
Óróapúls mældist skömmu eftir miðnætti
„Í kringum sjö í gærkvöldi byrjaði skjálftavirknin að aukast og skjálftum yfir fjögur að stærð fjölgaði,“ segir Einar Bessi. Margir öflugir skjálftar urðu á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í nótt. Stærsti skjálfti næturinnar varð klukkan 2:02 og mældist 5,0 að stærð. Skjálftarnir í nótt hafa dreifst um svæðið frá Fagradalsfjalli og að svæðinu norður af Þorbirni.
Eru þeir nær Grindavík en í gær?
„Já, í gær voru skjálftarnir mest bundnir við svæðið við Fagradalsfjall. En það sem útskýrir sennilega virknina norðan við Grindavík eru spennubreytingar í jarðskorpunni þar vegna þess að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli er að troða sér þar inn í jarðskorpuna,“ segir Einar Bessi.
Fulltrúar Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, Veðurstofunnar, Lögreglunnar á Suðurnesjum og Grindavíkurbæjar hittust á fundi klukkan hálf fjögur í nótt vegna jarðskjálftahrinu næturinnar. Þegar Einar Bessi er spurður hvort virknin sé að róast segir hann að enn mælist skjálftar yfir þremur og að áfram verði fylgst vel með. Sérfræðingar Veðurstofunnar fundi með almannavörnum í dag.