Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Mun fleiri leita til ráðgjafaþjónustu Samtakanna '78

07.03.2021 - 21:39
Stjórn Samtakanna 78 sem kosin var 7. mars 2021.
Stjórn Samtakanna '78. Mynd: Aðsend mynd
Meiri aðsókn var í ráðgjafaþjónustu Samtakanna '78 á síðasta ári en nokkru sinni fyrr, að því er fram kemur í ársskýrslu samtakanna sem kynnt var á aðalfundi þeirra í dag. Skjólstæðingum fjölgaði um 47 prósent milli ára og viðtölum 23 prósent.

Í fréttatilkynningu frá Samtökunum '78 segir að þetta komi ekki á óvart. Það sé vegna þess að mun fleiri hafi haft samband við samtökin eftir að transteymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans var lokað. Þetta er einnig rakið til þess að hinsegin fólk sem óski eftir alþjóðlegri vernd hérlendis reiði sig í auknum mæli á ráðgjafa og starfsfólk samtakanna.

Viðtöl á vegum ráðgjafastofunnar hafa margfaldast að fjölda síðustu ár. Fyrir fimm árum voru þau 202 talsins en 1.115 í fyrra.

Ný stjórn var kosin á aðalfundi. Þorbjörg Þorvaldsdóttir var endurkjörin. Agnes Jónasdóttir, Ólafur Axel Kúld og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir voru einnig kosin í stjórn á aðalfundinum í dag. Fyrir eru í stjórn Bjarndís Helga Tómasdóttir, Edda Sigurðardóttir og Andrean Sigurgeirsson.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV