Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Margir öflugir skjálftar til marks um kvikuhreyfingar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir, öflugir skjálftar hafa orðið á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga í nótt. Frá miðnætti til klukkan fjögur í nótt mældust 27 skjálftar þrír að stærð eða þar yfir. Sjö þeirra voru fjórir að stærð eða þaðan af stærri; sá stærsti 5,0. Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands segir að þótt engin merki sjáist um gosóróa sé þessi mikla virkni líklega til marks um meiri hreyfingu á kvikunni í kvikuganginum undir Fagradalsfjalli.

Hröð atburðarás og mjög mikil virkni

Kristín segir atburðarás næturinnar hafa verið mjög hraða frá miðnætti og virkni mjög mikla. Margir kröftugir skjálftar hafi mælst og þeir hafi að hluta komið í um það bil 20 mínútna löngum hviðum.

Stærsti skjálfti næturinnar, sem varð klukkan 2:02, mældist 5,0 að stærð, markaði upphafi slíkrar hviðu og í kjölfar hans mældust margir skjálftar um og yfir fjórir að stærð á um 20 mínútna óróatímabili.

„Og það er eins og að út frá stóra skjálftanum, þá dreifist skjálftavirknin bæði til austurs og vesturs, eins og við sáum fyrr í þessari hrinu. Þannig að það verða skjálftar sem eru komnir ansi nálægt Grindavík og finnast mjög vel þar."

Engin merki um gosóróa en þó líklega til marks um kvikuhreyfingar

Kristín segir að enn hafi ekki sést merki um gosóróa en virkni næturinnar sé auðvitað hluti þeirrar umbrotahrinu sem nú hefur staðið yfir í næstum tvær vikur. „Og við liggjum auðvitað bara yfir þessum gögnum núna og reynum að gera okkar besta til að átta okkur á því hvað er að gerast þarna, en líklega er þetta virkni í tengslum við þennan [kviku]gang sem hefur verið að myndast í Fagradalsfjalli."

Aðspurð hvort þau sjái einhver teikn um að eitthvað sé að fara að færa sig upp úr jörðinni á umbrotasvæðinu frekar en bara ofan í henni segir Kristín að skjálftarnir séu auðvitað til marks um einhverjar hreyfingar, „þannig að það er líklega einhver opnun í gangi þarna og meiri hreyfingar á þessari kviku. Þannig að það er auðvitað mjög mikilvægt að við séum að fylgjast mjög vel með þessu núna."

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV