Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefndarför og hórarí nýríkra Norðmanna

Mynd með færslu
 Mynd: Exit - NRK

Hefndarför og hórarí nýríkra Norðmanna

07.03.2021 - 20:00

Höfundar

Norsku útrásarvíkingarnir ógeðfelldu í Exit snúa aftur á skjáinn í nýrri þáttaröð. Nú hyggja konurnar í lífi þeirra á hefndir.

Sjónvarpsþættirnir Exit, sem norska ríkisútvarpið hóf sýningar á haustið 2019, vöktu mikla athygli og hneykslan. Í nýrri þáttaröð, sem verður aðgengileg í heild sinni í spilara RÚV á mánudag 8. mars, er enn gengið langt í ágengum lýsingum á gjálífi norskrar fjármálaelítu en sjónarhornið hefur færst til.

Áhorfendur fá betri mynd af því hvernig útrásarvíkingarnir fjórir sem kynntir voru til sögunnar í fyrri þáttaröðinni auðgast, með innherjaviðskiptum og frændhygli. Um leið færist aukin áhersla á eiginkonur og kærustur mannanna, sem eru algerlega upp á þá komnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Exit - NRK

Líkt og í fyrri þáttaröðinni er hér stuðst við opinská viðtöl höfunda við fólk í hringiðu þessa heims. Fyrir nýju þáttaröðina voru tekin viðtöl við konur sem hafa átt í samböndum við eða verið giftar auðmönnum og verið háðar þeim um peninga.

Leikstjóri og höfundur Exit, Øystein Karlsen, segir í viðtali við NRK frá tveimur slíkum viðtölum, um ólíka reynslu kvenna af þess konar samböndum. Önnur konan hafi verið meðvituð um að eiginmaður hennar hélt fram hjá. Að sögn Karlsen var það hluti af óskrifuðum samningi, hún sætti sig við það því hún gæti gert slíkt hið sama. Hún þurfti ekki að vinna og planið var að eignast barn, ráða au-pair og halda uppi ímyndinni. Hin konan vissi hins vegar ekki af framhjáhaldi eiginmanns síns og taldi allt leika í lyndi þar til hún komst að því að hann hafði stundað það að sofa hjá au-pair heimilisins.

Mynd með færslu
 Mynd: Exit - NRK

Karlsen leggur áherslu á að höfundar þáttanna hafi ekki verið á höttunum eftir konum sem litu á sig sem fórnarlömb. Nýju þættirnir fjalli um konur sem leita hefnda.

Nýja þáttaröðin hefur fengið mikið lof gagnrýnenda sem eru flestir á sama máli um að hún sé betri en sú fyrri. Gagnrýnandi Nettavisen segir að vart sé hægt að finna betra sjónvarpsefni en Exit 2 þessa dagana. Nýja þáttaröðin sé sársaukafull og erfið áhorfs en um leið dásamlega góð. „Önnur þáttaröðin er jafnvel hrárri og villtari og við dýrkum það.“

Mynd með færslu
 Mynd: Exit - NRK

Gagnrýnandi VG segir að höfundar þáttanna séu ekki jafn ákafir í að hneyksla áhorfendur og þeir hafi tónað niður yfirgengilegt gjálífi norsku útrásarvíkinganna að einhverju leyti. Það komi ekki að sök og gefur hann þáttaröðinni 5 af 6 mögulegum í einkunn.

Í dómi Dagsavisen segir að Exit 2 bjóði upp á betri og skemmtilegri sögu. Biksvartur húmorinn sé enn til staðar og frammistaða leikara jafnvel líflegri en í þeirri fyrri.

Exit 2  er aðgengileg í heild í spilara RÚV.

Mynd með færslu
 Mynd: Exit - NRK

Tengdar fréttir

Innlent

Norsku útrásarvíkingarnir reyndust frekir á fóðrum

Sjónvarp

Vonaði að persónurnar myndu allar deyja

Sjónvarp

Holskefla kvartana vegna Exit til norska útvarpsráðsins