Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hætta á hópsmiti af völdum breska afbrigðisins

07.03.2021 - 17:20
Mynd: Almannavarnir / Ljósmynd
„Það er mögulega í uppsiglingu hópsmit af völdum breska afbrigðisins,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Tilefni fundarins, sem boðað var til með litlum fyrirvara, eru þrjú ný smit, tvö þeirra eru af völdum breska afbrigðisins og beðið er eftir raðgreiningu á því þriðja. 

„Það skýrist á næstu dögum hvort ástæða sé til að grípa til harðari aðgerða innanlands en nú eru gildi,“ sagði Þórólfur. „Ef það kemur í ljós að það sé komin einhver dreifing á veiruna út fyrir þennan hóp sem við erum að tala um núna þá þarf svo sannarlega að endurskoða afléttingarnar sem hafa verið í gangi, finnst mér,“ bætti hann við. 

Þau smituðu búa í sama stigagangi

Hann útskýrði að farþegi hefði komið hingað til lands 26. febrúar með neikvætt PCR-próf og neikvæða fyrstu skimun. Á 5. degi sóttkvíar greindist hann hins vegar með breska afbrigði kórónuveirunnar. 

„Meðan á sóttkví stóð virðist þessi hafa náð að smita tvo sem ekki voru í sóttkví en það er ekki að sjá í rakningunni að hann hafi brotið sóttkvíarregur. Þetta sýnir hversu smitandi veiran getur verið,“ segir hann. Þau sem smituðust búa í sama stigagangi og sá sem var í sóttkví en virðast ekki hafa átt samskipti síðustu daga. Smitrakningarteymið kannar enn hvernig smitið barst á milli. 

„Þetta sýnir glöggt hversu lítið þarf til þess að koma af stað smithrinu og jafnvel nýrri bylgju af COVID-19, sérstaklega þegar um er að ræða þessi nýju og meira smitandi afbrigði af veirunni,“ sagði Þórólfur. 

Fólk á Landspítalanum og í Hörpu í sóttkví

Eitt af þessum smitum tengist dag- og göngudeild Landspítala og er smitrakning og sýnataka í gangi þar. Hluta deildarinnar hefur verið lokað en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir að smitið hafi frekari áhrif á starfsemi spítalans, eins og staðan er. Ríflega þrjátíu manns, sjúklingar og starfsmenn, eru komnir í sóttkví í tengslum við smitið.

„Þessir tveir sem greindust utan sóttkvíar gætu hafa smitað mikinn fjölda, bæði innan Landspítalans og á tónleikum í Hörpu á föstudaginn 5. mars. Mikil rakningarvinna hefur verið í gangi um helgina, og nokkrir tugir í sóttkví,“ segir Þórólfur.

Allir tónleikagestir í skimun

„Við tökum hart á þessu og reynum að koma í veg fyrir frekara smit og þess vegna biðjum við alla sem voru á tónleikunum að gæta vel að sóttvörnum og því eru þeir boðaðir í sýnatöku á morgun,“ sagði hann. Þeir sem ætla að mæta í skimun í tengslum við tónleikana verða að bóka tíma í gegnum Mínar síður á Heilsuvera.is og velja þar „Tónleikagestur í Hörpu 5. Mars 2021.“ Þeir sem skrá sig fá sent strikamerki og tímasetningu fyrir skimun. Allir tónleikagestir eru eindregið hvattir til að mæta í skimun og Þórólfur sagði að þeir þyrftu jafnframt að huga vel að persónulegum smitvörnum og takmarka samskipti við aðra þangað til niðurstaða úr skimun lægi fyrir.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn minnti að lokum á að fólk þyrfti að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörum og fara í sýnatöku við minnstu einkenni. Fólk ætti ekki að fara til vinnu eða mæta á samkomur ef það hefði einkenni sem gætu bent til COVID-19.