Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Ég mun seint gleyma þessum degi“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ég mun seint gleyma þessum degi“

07.03.2021 - 20:30
Keppt var til úrslita á Íslandsmótinu í borðtennis í dag í TBR-húsinu. Í einstaklingskeppninni freistuðu þau Ingi Darvis og Agnes Brynjarsdóttir úr Víkingi þess að verja Íslandsmeistaratitla sína.

 

Að þessu sinni fór Íslandsmótið fram í TBR-húsinu í Laugardal. Agnes Brynjarsdóttir, sem vann Íslandsmeistaratitilinn í einliðaleik í fyrra, og Nevana Tasic, úr Víkingi, unnu Íslandsmeistaratitilinn í tvíliðaleik og í karlaflokki voru það þeir Magnús Gauti Úlfarsson og Birgir Ívarsson úr BH sem sigruðu í tvíliðaleik karla. Í úrslitum í einliðaleik kvenna mættust þær Nevana Tasic og Sól Mixa. Nevana, sem flutti hingað til lands frá Serbíu fyrir tæplega fjórum árum, var að keppa á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti. Hún vann allar loturnar örugglega og tryggði sér sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil en Nevana vann einnig tvenndarkeppnina og er því þrefaldur Íslandsmeistari.

Í einliðaleik karla mættust þeir Magnús Gauti Úlfarsson úr BH og Ingi Darvis Rodriguez úr Víkingi en Ingi Darvis átti titil að verja. Úrslitaleikurinn var æsispennandi og var staðan 3-3 fyrir síðustu lotuna. Eftir maraþonviðureign var það loks Magnús Gauti sem stóð uppi sem sigurvegari og er hann því Íslandsmeistari í einliðaleik karla.

„Ég mun seint gleyma þessum degi. Þetta er þriðji titilinn sem ég vinn en ég held að þetta hafi jafnvel verið sá sætasti,“ sagði Íslandsmeistarinn Magnús Gauti.