Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Varnarbúnaður virkaði vitlaust og truflaði viðgerðir

06.03.2021 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Bilun í háspennubúnaði á tveimur stöðum í Grindavík olli rafmagnsleysi í Grindavík og nágrenni í gær sem varði í sjö klukkustundir, og sums staðar lengur. Egill Þorsteinn Sigmundsson, sviðstjóri rafmagnssviðs HS Veitna, segir að varnarbúnaður, svokölluð mismunastraumsvörn, sem sló út rafmagni í Grindavík og Svartsengi hafi virkað vitlaust og að það hafi gert HS veitum erfitt fyrir að greina bilunina.

Tók langan tíma að greina bilunina

„Það tók langan tíma fyrir okkur að átta okkur á því að bilunin var hvorki í Svartsengi né í tengingunni frá Svartsengi til Grindavíkur. En það var eins og búnaðurinn horfði á að þar væri bilun. En það tók alveg fimm tíma fyrir okkur að átta okkur á að bilunin var niðri í Grindavík,“ segir Egill.

Þannig að búnaðurinn brást hreinlega vitlaust við, eins og bilunin væri annars staðar en hún var?

„Já, og hann horfði út fyrir sitt svið. Þessi búnaður skipti sér af svæði sem hann átti ekki að skipta sér af, og það veldur því að það verður erfitt að meta hvar bilunin verður,“ segir hann. 

Fannar Jónasson bæjarstjóri í Grindavík sagði við fréttastofu í gær að rafmagnsleysi væri slæmt við bestu aðstæður en afleitt núna þegar standa yfir langvinnar jarðskjálftahrinur og hætta á eldgosi á Reykjanesskaga er yfirvofandi. Margir væru þegar áhyggjufullir og rafmagnsleysið gerði illt verra. Björgunarsveitarmenn í Grindavík tóku þátt í að koma á rafmagni í bænum. Þeir fóru meðal annars á dvalarheimili fyrir aldraða til að koma upp varaafli. Fljótlega eftir að rafmagn fór af bænum var búið að koma á varaafli í húsnæði björgunarsveitarinnar.

Ótengt rafmagnsleysinu á Suðurlandi

Rafmagnsleysið tengdist ekki skjálftavirkninni á Reykjanesskaga. Rafmagn fór einnig af stóru svæði á Suðurlandi upp úr klukkan tíu í kvöld þegar spenna fór af tveimur spennivirkjum við Selfosslínu 1 og straumur fór af línunni. Egill segir að rafmagnsleysið á Suðurlandi hafi ekki tengst rafmagnsleysinu í Grindavík.

„Rafmagnsleysið á Suðurlandi tengdist því að þeir töldu sig hafa séð eldingu á línu. Sú lína fór út og kastaði spennu út frá Rarik og HS Veitum í aðveitustöð á Selfossi. Þannig að þetta tengist ekki neitt,“ segir Egill.