Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þrír skjálftar yfir þremur

Myndin sýnir vel svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls (lengst til vinstri) þar sem flestir skjálftarnir eiga rætur. Sést líka vel yfir á Reykjanesbæ.
Myndin er tekin frá Spákonuvatni sunnan Trölladyngju.
 Mynd: Einar Páll Svavarsson
Þrír skjálftar mældust stærri en 3,0 um klukkan ellefu í morgun. Átta mínútur í ellefu og átján mínútur yfir mældust skjálftar sem voru 3,2 að stærð. Klukkan sautján mínútur yfir ellefu varð svo skjálfti af stærðinni 3,1. Þeir voru á bilinu 0,8 til 1,7 kílómetrar suður- og suðsuðaustur af Fagradalsfjalli og á fjögurra til fimm kílómetra dýpi.

Þetta eru fyrstu skjálftarnir sem ná stærðinni 3 síðan um miðja nótt. Sex skjálftar á bilinu 3,0 til 3,6 mældust á skjálftamælum Veðurstofunnar frá klukkan hálf þrjú til rúmlega fjögur í nótt.

Eldfjalla og náttúruvárhópur Háskóla Íslands birti í dag nýja hraunflæðispá. Samkvæmt henni færi hraun ekki yfir Reykjanesbraut ef eldgos hæfist miðað við núverandi forsendur en ekki er útilokað að það næði niður á Suðurstrandarveg. Samkvæmt því væri mun minna svæði undir ef til eldgoss kæmi en verið hefur í spám hópsins síðustu daga. 

Leiðrétt 12:32 Miðskjálftinn yfir þremur í morgun varð klukkan 11:17, ekki 11:11 eins og sagði upphaflega.