Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Teiknað fyrir þjóðina

Mynd: Halldór Pétursson / Þjóðminjasafn Íslands

Teiknað fyrir þjóðina

06.03.2021 - 11:57

Höfundar

Í myndasal Þjóðminjasafns Íslands stendur nú yfir sýningin Teiknað fyrir þjóðina en um er að ræða yfirlitssýningu á verkum Halldórs Péturssonar (1916-1977) sem var einn ástælasti teiknari þjóðarinnar um og eftir miðja síðustu öld. Á sýningunni má glöggt sjá fjölhæfni hans sem teiknara en þar eru sýndar teikningar, skissur og fullunnin verk hans frá barnæsku til æviloka.

Halldór Baldursson, einn vinsælasti teiknari þjóðarinnar, stendur fyrir teiknismiðju fyrir börn og fjölskyldur í tengslum við sýninguna og segir að verk nafna hans hafi skipt sig miklu máli. „Hann skipti mig ótrúlega miklu máli. Maður er náttúrulega með smá nostalgígju-fiðring þegar maður labbar hérna um af því að þetta var stór hluti af manns æsku.“

Árið 1980 var gefin út bók þar sem mörgum myndum Halldórs Péturssonar var safnað saman, þá bók eignaðist Halldór Baldursson, kornungur, en löngu byrjaður að teikna sjóræningja og fótboltaleiki. „Það munaði kannski mestu um það, þar er ansi gott yfirlit yfir hans verk. Ég man eftir því að hafa legið í þessu, ég var þessi teiknikrakki. Ég var þarna fimmtán ára, fæ bókina, og hugsaði, ég verð að fara að hætta þessu, verða arkitekt eða auglýsingasmiður, en maður átti þennan draum, og þessa fyrirmynd í nafna mínum, að maður gæti hugsanlega ílengst í þessu. Hann skipti mig svona miklu máli. Þessi bók er ennþá uppi í hillu hjá mér og hún er alveg gatslitin af því að ég skoðaði þetta í bak og fyrir. Það er ekki það að við séum eitthvað sérstaklega líkir teiknarar en við erum á svipuðu sviði. Hann teiknaði í barnabækur, skopmyndir af fólki, samtímaviðburði. Og ég finn mig í þessu öllu þó ég sé kannski ekki alveg á sömu greininni.“

Myndir sem fóru víða

Halldór Pétursson lærði list sína meðal annars hjá Guðmundi Thorsteinssyni (Muggi) og Júlíönu Sveinsdóttur. Einnig stundaði hann nám í Kaupmannahöfn, New York og víðar. Verk hans eru ótrúlega fjölbreytt og fjölhæfnin var mikil. Hann myndskreytti fjölda bóka, meðal annars Íslensku dýrin og Vísnabókina, sem urðu gríðarlega vinsælar. Hann teiknaði skopmyndir í Spegilinn, hannaði forsíður tímarita á borð við Vikuna, teiknaði frímerki, og vann fyrir Þjóðleikhúsið allt frá stofnun þess árið 1950. Hann gerði meðal annars eftirminnilegar teikningar af heimsmeistaraeinvíginu í skák, sem haldið var í Reykjavík árið 1972, myndir af þeim Bobby Fischer og Boris Spassky, og sömuleiðis myndir frá þorskastríðunum, myndaraðir sem birtust í tímaritum út um allan heim.

Mynd með færslu

Árið 2017 færðu börn Halldórs Péturssonar Þjóðminjasafni til varðveislu heildarsafn teikninga föður síns. Stór hluti verkanna á sýningunni í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands koma úr þeirri safneign en einnig eru sýnd verk fengin að láni frá fjölmörgum stofnunum hér á landi. Sýningarstjóri er Unnar Örn Auðarson.

„Heimurinn er stór. Hann er stærri en allt túnið.“

Árið 1976 kom út barnabókin Helgi skoðar heiminn en fáar íslenskar barnabækur hafa notið meiri hylli. Verkið hefur meðal annars þá sérstöðu að lögð var jöfn áhersla á myndir og texta, en Njörður P. Njarðvík skrifaði söguna eftir myndum Halldórs Péturssonar.

„Þeir komu sér saman um það af einhverjum ástæðum að Halldór fengi að byrja. Ef einhver myndi halda að þar með væri heimurinn breyttur og teiknarar hefðu héðan í frá alltaf byrjað og rithöfundar komið á eftir þá er það reyndar ekki svo. Þetta er eina bókin sem ég man eftir sem var unnin svona, en þetta er skemmtilegt. Reyndar þegar ég vinn mínar myndir, eins og í Fréttablaðið, þá er ég oft með einhverja fyndna senu í huga en ekki búinn að semja brandarann, ég byrja bara að teikna og sé til hvað gerist. Þannig að ég kannski vinn sjálfur á einhvern svipaðan hátt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Halldór Baldursson.

Halldór Baldursson segist hafa lært mikið af nafna sínum. „Af því að hann er svona faglega góður teiknari þá er hægt að læra mjög mikið af honum, bara það hvernig hann stillir hlutum upp, hvernig hann lætur viðfangsefnin standa fallega í rýminu, hvernig hann skiptir myndfletinum upp mjög faglega, nær dýpt og það er hægt að tala mikið um þetta.“

Norman Rockwell Íslands 

Aðspurður um myndheim Halldórs Pétursson segir Halldór Baldursson að nafni hans hafi ekki verið jafn kaldhæðinn og hann sjálfur, þeir eigi það hins vegar sameiginlegt að vera mjög afkastamiklir. „Það eigum við sameiginlegt, „shipping beats perfection,“ við verðum að skila og klára og framleiða, gera sem flestar myndir.“ Og Halldór líkir nafna sínum við bandaríska myndlistarmanninn og teiknarann Norman Rockwell (1894-1978) sem þekktur var fyrir að endurspegla bandaríska hvunndagsmenningu og samtíma í verkum sínum, hann teiknaði til dæmis forsíður tímaritsins The Saturday Evening Post í ríflega hálfa öld. „Þetta er Norman Rockwell Íslands, þetta er hversdagslegt og þetta endurspeglar einhvern hversdagsleika sem er svo mikilvægur. Ef maður fer að kafa ofan í verk þessara meistara þá erum við með söguna, Ísland og þessa merkilegu tíma. Hann skrásetur þetta með sínum stíl, stemninguna, og maður verður að lesa í þetta.“

Á sýningunni Teiknað fyrir þjóðina má meðal annars sjá skopmyndir af þjóðþekktum mönnum á borð við Halldór Laxness, Sigfús Daðason og Jóhannes Birkiland. „Skopmyndirnar eru skemmtilegar. Hann dásamaði það mikið þegar sjónvarpið kom, hann gat þá bara setið og horft á fólk tala, séð Halldór Laxness og þessa helstu menn, og teiknaði bara fyrir framan sjónvarpið. Hann sá nú netið ekki fyrir en sá hefði nú getað notað það.“

Halldór Baldursson segist einkum dragast að pólitískum skopmyndum nafna síns. „Þetta er svo mikið, og hann fer svo víða. Hann notar crosshatcing-línuna og allt þetta, nostrar svolítið við þetta. Líklega er það nostalgískt, en ég fékk svo mikið út úr því að horfa á þetta, myndir af víkingum til dæmis, stundum prófaði hann að vera of stílíseraður, þetta er vítt svið, víður skali af myndgerð sem hann notar þó hans höfundareinkenni séu alltaf mjög greinileg.“

Allir geta teiknað

Halldór Baldursson stendur fyrir teiknismiðju fyrir börn og fjölskyldur í Þjóðminjasafninu kl. 14:00 á sunnudag í tengslum við sýninguna Teiknað fyrir þjóðina. „Þá verð ég bara með fólki að teikna, og tala kannski um nafna minn og það hvernig er að teikna myndir, og virkja fólkið, vegna þess að það geta allir teiknað, það er bara misjafnt hvað kemur út úr því.“

Sýningin Teiknað fyrir þjóðina. Myndheimur Halldórs Péturssonar stendur yfir í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands til 14. mars næstkomandi.
Rætt var við Halldór Baldursson í Víðsjá.

Tengdar fréttir

Myndlist

Myndir sem dvelja í líkamsminninu

Myndlist

„Hugurinn og höndin unnu fullkomlega saman“