Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Svæðið verður auðvitað aldrei eins og það var“

06.03.2021 - 10:55
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Vinna við hreinsun rústa og björgun muna á svæðinu þar sem aurskriður féllu á Seyðisfirði er komin vel áleiðis og nú sér fyrir endann á eiginlegu hreinsunarstarfi. Þetta kom fram á stöðufundi Lögreglunnar á Austurlandi í vikunni. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, segir að svæðið líti mun betur út en það gerði eftir skriðurnar en þó sé enn mikið eftir í uppbyggingu á svæðinu.

Skoða að flytja hús af svæðinu

„Ég held að þetta svæði verði alveg í lagi en auðvitað verður það ekki eins og það var. Við skulum átta okkur á því að hluti þessa svæðis er undir skriðu og þær verða ekki hreinsaðar að fullu. Eins og við sjáum ef við horfum yfir svæði þar sem skriður hafa fallið, þar er þetta þannig,“ segir Björn í samtali við fréttastofu. Það eru verktakar á vegum sveitarfélagsins sem vinna hreinsunarstarfið en sérfræðingar Minjastofnunar og Þjóðminjasafnsins hafa komið að munabjörgun. 

„Menn hafa náð að hreinsa mikið til þarna. Auðvitað varð töluvert tjón á húsnæði. Í sumum tilvikum verður ekki farið í endurbyggingar, í öðrum er verið að bíða eftir frummati á hættumati. En það sem er verið að vinna við er bara að hreinsa þetta og svo eru menn að horfa til þess að mögulega flytja eignir sem menn vilja halda í,“ segir hann. 

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Austurlandi segir að tvær vélar séu notaðar við að móta setþró innan varnargarða ofan við Slippinn. Við Nautaklauf hafi verið gengið frá grjóthleðslum í farveginum og gengið frá endum efst á varnargarðinum. Nú sé unnið að undirbúningi aðgerða við vatnsfarveg yfir Fossgötu og hönnun á nýrri veituþverun á Búðará.

Fólk enn að jafna sig en vöktun verður betri

Síðustu vikuna hefur Veðurstofan unnið að líkanreikningum til að meta hættu á skriðum sem gætu fallið úr þelaurðinni undir Strandartindi. Þá stendur til að bæta við sex sjálfvirkum GPS stöðvum til viðbótar við þær þrjár sem fyrir eru. Þegar þeim hefur verið komið upp verður auðveldara að vakta svæðið á meðan úrkoma gengur yfir og skyggnið er slæmt. Félagsþjónusta Múlaþings býður íbúum á Seyðisfirði upp á viðtöl og sálfræðiþjónusta er í boði á heilsugæslunni. Björn segir íbúa marga vera enn að jafna sig eftir áfallið sem fylgdi skriðuföllunum:

„Fólk hefur tekið þessu af mikilli ró en þetta er langtímaverkefni, að komast yfir og jafna sig á áhrifunum. Og við munum hjálpa fólki við það áfram. Maður hefur fullan skilning á því að þetta er mikið áfall og það tekur tíma að vinna úr því. En ég held að mér sé alveg óhætt að segja að íbúar á Seyðisfirði hafa staðið sig alveg feiknarlega vel í þessu,“ segir hann.