Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Stór hluti slasaðra á rafskútu undir áhrifum áfengis

06.03.2021 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alls leituðu 149 á bráðamóttöku Landspítalans síðasta sumar vegna áverka af völdum rafhlaupahjóla, að meðaltali 1-2 á dag. Mjög stór hluti þeirra var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þetta kom fram í máli Sigrúnar Guðnýjar Pétursdóttur, hjúkrunarfræðings á bráðadeildinni, á Bráðadegi Landspítalans í gær.

Áverkar oftast minniháttar

Sigrún Guðný fjallaði um niðurstöður rannsóknar sem var unnin á bráðadeildinni frá 1. júní til 31. ágúst og byggir á spurningalistum sem voru lagðir fyrir alla þá sem leituðu á spítalann eftir rafhlaupahjólaslys.

Áverkarnir voru oftast á höfði, handleggjum eða fótleggjum. Sigrún segir að áverkarnir hafi oftast verið minniháttar og enginn hafi haft lífshættulega áverka. Þó hafi einn verið lagður inn á gjörgæslu. 5 prósent þeirra sem slösuðust höfðu brotnar tennur eða andlitsbein. 

Næstum helmingur börn

„Nokkur stór hluti er börn, 45 prósent þeirra sem komu voru yngri en 18 ára. Það er nú ánægjulegt að þegar var spurt um áfengisnotkun virtist unglingadrykkja ekki vandamál; það var enginn undir 18 ára sem viðurkenndi notkun á áfengi eða vímuefnum. Þegar fullorðnir voru hins vegar spurðir um það sama kom í ljós að 40 prósent þeirra játuðu að þau hefðu verið undir áhrifum,“ sagði Sigrún. 

„Meirihluti sagðist hafa farið of hratt og misst jafnvægi, eða að ójafna í götu, grjót, sandur eða gangstéttarbrún hafi valdið fallinu,“ sagði hún. Í fyrirlestrinum kom jafnframt fram að um það bil 900 leigurafhlaupahjól væru í umferð í Reykjavík. 

Sigrún sagði mikilvægt að hvetja til þess að fólk notaði ekki rafhlaupahjól undir áhrifum áfengis og að æskilegt væri að allir notuðu hjálm. Þá þyrfti að fræða ungt fólk um að gangandi vegfarendur ættu alltaf réttinn.