Sex jarðskjálftar sem mældust stærri en 3,0 riðu yfir rétt sunnan við Fagradalsfjall frá klukkan 18:43 til 20:32. Tveir þeirra voru 3,2 og tveir voru 3,4. Að auki var einn skjálfti sem mældist 3,3 og annar sem var af stærðinni 3,5.
Skjálftarnir voru á fimm og hálfs til sex og hálfs kílómetra dýpi.
Frá miðnætti hafa alls mælst nítján skjálftar sem voru 3,0 eða stærri. Upp úr klukkan átta í kvöld höfðu mælst 1.800 jarðskjálftar á Reykjanesskaga frá því á miðnætti. Í gær voru skjálftarnir alls 2.800.
Enginn órói hefur mælst í dag þótt svo skjálftavirkni hafi verið mikil.