Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sex skjálftar hafa mælst 3 og þaðan af stærri í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Sex skjálftar af stærðinni þrír og þar yfir hafa orðið á umbrotasvæðinu á Reykjanesi frá miðnætti. Þrír þeirra urðu rétt upp úr klukkan hálfþrjú í nótt, 3,0, 3,1 og 3,3 að stærð, og sá fjórði rétt fyrir þrjú. Sá mældist 3,0. Tólf mínútur yfir þrjú varð svo skjálfti sem mældist 3,3 og rétt tæpri klukkustund síðar reið öflugasti skjálfti næturinnar yfir, sá mældist 3,7 og fannst greinilega hér í Útvarpshúsinu. Upptök allra þessara skjálfta eru í námunda við Fagradalsfjall.

Veðurstofan greindi rúmlega 2.800 skjálfta á umbrotasvæðinu í gær, frá miðnætti til miðnættis. Fjórtán þeirra voru yfir þrír af stærð, þar af einn stærri en fjórir. Hann varð laust fyrir hádegi og mældist 4,1.

Ástandið á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga er annars óbreytt frá því sem verið hefur, sagði Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands á fimmta tímanum í nótt; enginn gosórói en mikil skjálftavirkni. Í hrinunni allri hafa mælst yfir 22.000 skjálftar, sá stærsti þeirra 5,7 að stærð.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV