Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðherra segir af sér vegna mannskæðra fangauppreisna

79 fangar létu lífið í uppþotum í fjórum fangelsum Ekvadors, þriðjudaginn 23. febrúar 2021. Talið er að blóðbaðið tengist átökum glæpagengja um áhrif og völd.
 Mynd: epa
Innanríkisráðherra Ekvadors sagði af sér embætti í gær, vegna blóðugra fangauppreisna í fjórum fangelsum landsins á dögunum, þar sem 79 létu lífið. Í bréfi til Leníns Morenos, forseta Ekvadors, segir ráðherrann Patricio Pazmino afsögnina alfarið sína eigin, persónulegu ákvörðun, sem ekki yrði haggað. Ekvadorþing kallaði eftir afsögn ráðherrans á mánudag, viku eftir uppþotin. Þingheimur krafðist líka afsagnar ríkislögreglustjórans og fangelsismálastjóra.

 

Blóðbaðið rakið til átaka glæpagengja

Blóðug átök brutust út samtímis í fjórum fangelsum í þremur héruðum Ekvador þriðjudaginn 23. febrúar. Yfirvöld segja blóðbaðið tengjast átökum glæpagengja, sem ýmist tengjast mexíkóskum eða kólumbískum glæpasamtökum, um völd og áhrif innan fangelsanna jafnt sem utan.

Segist hafa fengið COVID-19 öðru sinni

Pazmino sagði afsögn sína ekki einungis afleiðingu uppþotanna, heldur segði hann líka af sér af heilsufarsástæðum, þar sem hann hefði nýverið greinst með COVID-19, öðru sinni.

Pazmino tók við ráðherraembættinu í nóvember í fyrra, eftir að forveri hans, Maria Paula Romo, hrökklaðist úr embætti. Það sem varð henni að falli var notkun lögreglu á útrunnu táragasi í blóðugum átökum lögreglu og mótmælenda ári fyrr, haustið 2019. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV