Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óvissa um framtíð neyðarathvarfs fyrir konur á götunni

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tíu heimilislausar konur, sem fengu inni í neyðarathvarfi sem sett var á fót vegna heimsfaraldursins, eru komnar í tryggt húsnæði. Sérfræðingur í málefnum heimilislausra hjá Reykjavíkurborg vill að úrræðið verði varanlegt. 

Heimurinn harðari í faraldrinum

Reykjavíkurborg telur að þrjátíu til fjörutíu konur séu heimilislausar eða háðar ofbeldismönnum um húsnæði. Margar þeirra glíma við vímuefnavanda. Eftir að heimsfaraldurinn skall á fjölgaði konum í vanda. Í heimsfaraldrinum er alveg þekkt að ofbeldi eykst og heimurinn verður harðari hjá þessu fólki, við vissum af konum inni á öðrum sem voru ekki beint skilgreindar heimilislausar eða óstaðsettar í hús en eru samt að stríða við heimilisleysi,“ segir Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstjóri málaflokks heimilislausra hjá Reykjavíkurborg.

Konukot gat aðeins tekið við átta konum með tilliti til sóttvarna og fjarlægðarmarka, fyrst var farið í að koma konunum fyrir á gistiheimilum, en svo fékkst fjármagn frá félagsmálaráðuneytinu til að bregðast við stöðunni.

Athvarf fyrir konur sem fá ekki inni í Kvennaathvarfinu 

Ákveðið var að opna neyðarathvarf með allt að 14 plássum þar sem konur geta búið í sérherbergi með baðherbergi og fengið aðstoð allan sólarhringinn, ekki ósvipað kvennaathvarfinu og með skaðaminnkandi hugmyndafræði að leiðarljósi. Þetta er viðbót við þau úrræði sem fyrir eru; Konukot sem er með svefnpláss fyrir 12 konur, 15 einstaklingsíbúðir með stuðningi sem borgin hefur útvegað og nýtt dagsetur sem var opnað í síðustu viku svo konurnar þurfi ekki að hafast við úti yfir daginn. Svo eru örfá smáhýsi fyrir fólk í sjálfstæðri búsetu en illa hefur gengið að finna lóðir fyrir þau. „Þetta eru konur sem lifa í mjög óöruggum aðstæðum, mjög ótryggum, mjög útsettar fyrir ofbeldi, alvarlegu, hættulegu og langvarandi ofbeldi og flestar með alvarleg streitueinkenni og áfallaeinkenni. Það hefur verið erfitt að fá ofbeldisaðstæður þeirra skilgreindar sem heimilisofbeldi og ef lögreglan hefur afskipti af aðstæðum þar sem þær eru beittar ofbeldi þá fer hún með þær í Konukot því þær fá ekki inni í Kvennaathvarfinu,“ segir Hrafnhildur.  

Lýstu áhrifum dvalarinnar á líf sitt

Hrafnhildur segir að 25 konur hafi nýtt úrræðið síðastlðið ár og af þeim séu tíu komnar í tryggt húsnæði og nokkrar til viðbótar í meðferð. Úrræðið hefur verið framlengt í þrígang, nú síðast út maí. Framtiðin er óljós. Í haust sendu konurnar frá sér yfirlýsingu þar sem þær mótmæltu fyrirhugaðri lokun athvarfsins og lýstu því hvaða áhrif dvölin þar hafði á þær. Ein sagði athvarfið hreinlega hafa bjargað lífi sínu. Öryggið og andrýmið hafi hjálpað þeim að finna jafnvægi og byrja að vinna úr erfiðum áföllum í fyrsta sinn í mörg ár. 
 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV