Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Johaug í algjörum sérflokki í síðustu greininni á HM

epa09056334 Therese Johaug of Norway celebrates winning the Cross Country Women 30km event at the FIS Nordic World Ski Championships 2021 in Oberstdorf, Germany, 06 March 2021.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Johaug í algjörum sérflokki í síðustu greininni á HM

06.03.2021 - 11:00
Lokagrein Heimsmeistaramóts kvenna í skíðagöngu var 30 kílómetra ganga með hefðbundinni aðferð við frábærar aðstæður í Oberstdorf í Þýskalandi. Therese Johaug þótti sigurstrangleg fyrir gönguna og sýndi styrk sinn í sporinu í dag.

Hin norska Therse Johaug vann þessa grein í Seefeld á HM fyrir tveimur árum síðan en þá var gengið með frjálsri aðferð. Í dag var gengið með hefðbundinni aðferð og Johaug lagði gönguna upp svipað og síðustu göngur í lengri vegalengdum sem hún hefur tekið þátt í. Eftir að hafa gengið meðal fremstu kvenna fyrstu 3,8 kílómetrana fékk Johaug nokkra metra niður til keppinauta sinna. 

Eftir þetta var ekki aftur snúið fyrir Johaug, hún tók að meðaltali 10 sekúndur á hvern kílómeter næstu kílómetrana þar á eftir og þegar gangan var rétt rúmlega hálfnuð leiddi hún með 1.38 mínútum. Johaug sem hafði þegar unnið til þrennra gullverðlauna á mótinu og meðal annars unnið allar einstaklingsgreinarnar gat því gengið að sigrinum vísum eftir að hafa gengið nánast alla gönguna í dag ein síns liðs. Þrátt fyrir mikið forskot til keppinauta sinna hélt Johaug samt uppteknum hætti og bætti í eftir því sem leið á gönguna og vann að lokum með rúmlega tveggja og hálfs mínútna mun niður til Heidi Weng frá Noregi sem endaði önnur en skammt á eftir henni kom Frida Karlsson frá Svíþjóð.

Johaug er núna orðin næst sigursælasta skíðagöngukonan í sögu HM með 19 verðlaun í heildina, þar af 14 gullverðlaun. Sú eina sem slær henni við er landa hennar Marit Bjørgen.