Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Á fjórða hundrað fylgdust með íbúafundi

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
„Ég held að þarna hafi endurspeglast það sem fólk er að hugsa almennt hér í bæjarfélaginu,“ sagði Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, að loknum íbúafundi í dag. Hann sagði að rafmagnsleysið í gær hafi verið mjög óheppilegt. „Það fór illa í fólk. Við höfum skynjað þetta. Það er verkefni sem við verðum að vinna að, að annað eins gerist ekki hjá okkur. Þetta hafði líka áhrif á fjarskipti þannig að þetta var keðjuverkandi.“

Fannar sagðist í síðdegisfréttum RÚV skilja vel vaxandi óþreyju íbúa síðustu tíu daga. Skjálftahrinan hófst miðvikudaginn 24. febrúar með stærsta skjálftanum til þessa, 5,7 að stærð. Viku síðar bárust fréttir af óróapúlsi og hugsanlegri hættu á eldgosi. Ofan á það bættist rafmagnsleysið í gær.

Þrettán jarðskjálftar 3,0 eða stærri hafa mælst frá miðnætti, allir sunnan við Fagradalsfjall.

All nokkrir mættu á íbúafundinn í Grindavík í dag og á fjórða hundrað fylgdist með streymi frá fundinum.

Á morgun verður haldinn annar íbúafundur. Þar verður sjónum beint að Grindvíkingum af pólskum uppruna og verða túlkar til staðar. Fannar sagði að þar verði sérstaklega farið yfir öryggismál og gæði íslenskra bygginga. „Við þurfum að koma þessu rækilega á framfæri við þetta fólk ekki síst.“