Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Styðja uppbyggingu Stuðlagils

05.03.2021 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Júnía Magnúsdóttir -
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur ákveðið að styðja uppbyggingu á Stuðlagili á Efra-Jökuldal um 15 milljónir króna. Landeigendur á svæðinu hafa fengið sjálfseignarstofnunina Austurbrú til liðs við sig til að vinna að uppbyggingu Stuðlagils.

Í skriflegu svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að fjárveitingin sé ætluð til að samræma aðgerðir til að byggja upp áfangastaðinn. Stuðlagil sé sjálfsprottinn áfangastaður ferðamanna sem njóti mikilla vinsælda og þarfnist frekari uppbyggingar til að vernda bæði viðkvæma náttúru og öryggi ferðamanna. 

Stuðlagil var mjög vinsæll áfangastaður síðasta sumar og við bæinn Grund á Jökuldal hófst í sumar uppbygging á aðstöðu fyrir ferðamenn sem farnir voru að streyma niður að bakka Jökulsár á Dal. Stuðlagil hefur fengið alls fjóra styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða frá árinu 2018, meðal annars fyrir bílastæði, skiltum og köðlum meðfram brattri slóð.