Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Helgarveðrið hagstætt miðað við árstíma

05.03.2021 - 06:46
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Hægar suðlægar eru ríkjandi í dag með lítilsháttar rigningu. Bjartviðri er á Norður og Austurlandi. Í kvöld bætir í rigningu á Suður- og Vesturlandi en hiti verður á bilinu tvö til sjö stig.

Dálítil væta verður á köflum á morgun en svolítill él um landið norðaustanvert og hiti þar við frostmark. Á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir suðaustanátt með lítilsháttar vætu, gola eða stinningsgola, 3 til 8 metrar á sekúndu.

Í kvöld og nótt spáir veðurstofan rigningu eða súld, hiti þrjú til sjö stig. Á morgun verður hæg breytileg átt á höfuðborgarsvæðinu, þurrt að kalla í kólnandi veðri. 

Á sunnudag er áfram hægviðri í kortunum og yfirleitt þurrt og einnig gæti sólin náð að skína nokkuð víða, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Þar segir einnig að helgarveðrið sé með hagstæðasta móti miðað við árstíma og um að gera að njóta þess meðan er.

Hálkublettir eða hálka eru á nokkrum fjallvegum á norðaverðu landinu. Hálkublettir eru einnig á örfáum stöðum á Suðausturlandi. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV