Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Flóðbylgjuviðvörun aflétt eftir risaskjálfta

05.03.2021 - 04:56
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Flóðbylgjuviðvörun hefur verið aflétt og þúsundum íbúa Nýju Kaledóníu, Vanúatú og Nýja Sjálandi verið leyft að snúa aftur til síns heima þar sem minna varð úr sjávarróti en óttast var þegar feikiöflugur jarðskjálfti, 8,1 að stærð, skók stóran hluta Eyjaálfu í gærkvöld.

Upptök skjálftans voru nærri Kermanec-eyjum, norðaustur af Nýja Sjálandi. Sá skjálfti fylgdi í kjölfar tveggja mjög öflugra skjálfta sem mældust 7,3 og 7,4, og varð til þess að tugir þúsunda íbúa Vanúatú, Nýju Kaledóníu og norðausturstrandar Nýja Sjálands voru hvattir til að forða sér í öruggt skjól, fjarri ströndinni, þar sem hætta var talin á allt að þriggja metra háum flóðbylgjum.

Ekkert varð þó af þeim hamförum, til allrar mildi, og engar fregnir hafa heldur borist af tjóni á mannvirkjum. Stóri skjálftinn varð þegar klukkan var um hálf níu að morgni föstudags þar eystra, eða um klukkan hálf átta í gærkvöldi hér á landi. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV