Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Finnur aukna bjartsýni og hreyfingu á vinnumarkaði

05.03.2021 - 18:34
Mynd: Hagvangur / Hagvangur
Það er að glæðast á vinnumarkaði, segir Sverrir Briem einn eigenda ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs. Hann bendir atvinnuleitendum á að skrá sig hjá ráðningarfyrirtækjum, þar sem 80 prósent starfa sem ráðið er í eru aldrei auglýst.

Sverrir segir að fyrir ári hafi þau hjá Hagvangi ekki verið sérlega bjartsýn. „Við vorum mjög svartsýn og bjuggumst allt eins við því að það myndi allt frjósa. Það gerði það að einhverju leyti fyrstu vikurnar en svo kom í ljós að atvinnulífið svolítið hélt áfam að rúlla og að áhrifin af COVID einskorðast svolítið við ferðaþjónustuna og margt tengt því. En mörg önnur fyrirtæki gengu bara nokkuð vel og heilt yfir var síðasta ár allt í lagi hjá mörgum fyrirtækjum, þar á meðal okkur,“ segir hann en vissulega hafi faraldurinn haft áhrif víða. „Ég var að tala við mann sem rekur fatahreinsun og það er ekkert að gera þar. Fólk mætir ekki í vinnu og fer ekki að láta hreinsa jakkafötin sín, þannig að auðvitað hefur þetta áhrif víða. En þessi áhrif hafa ekki náð að dreifast jafnmikið og við bjuggumst við.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lucas - Pexels
Jakkafötin hafa hangið lítt hreyfð upp í skáp hjá mörgum síðustu mánuði.

Birna Guðmundsdóttir, deildarstjóri gagnagreiningardeildar Vinnumálastofnunar, sagði í Speglinum á dögunum að útlit sé fyrir að hápunkti atvinnuleysis sé náð og er þokkalega bjartsýn á að atvinnuleysistölurnar fyrir febrúarmánuð líti betur út en í janúar. Tölurnar verða birtar síðar í mars. 

Sverrir upplifir að það sé meiri hreyfing á vinnumarkaðinum nú en fyrir tveimur mánuðum. „Já, það er að glæðast,“ segir hann. „Mörg fyrirtæki hafa nýtt tímann til að endurskipuleggja sig og hreyfa eitthvað til. Þannig að við finnum alveg fyrir því að það er hreyfing á markaðinum. Það er aukin bjartsýni.“

Aðspurður tekur hann undir það að búast megi við hálfgerðri sprengingu í atvinnulífinu þegar tekst að koma böndum á faraldurinn. 

„Jú, það er alveg algjörlega við því að búast. Og þetta á örugglega eftir að taka hraðar við sér en maður heldur. Það er einu sinni þannig að maður er alltaf svartsýnni í dýpstu lægðinni og svo gerast hlutirnir hraðar heldur en maður heldur. Það er oftast þannig. Við erum alveg bjartsýn á framhaldið og höldum að þetta fari fljótt af stað aftur.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það verður forvitnilegt að sjá hvort hagkerfið taki hratt við sér eins og margir vona.

Tæplega 22.000 manns voru á atvinnuleysisskrá í febrúar. Tæplega 9.000 manns sem lokið hafa grunnskólaprófi voru atvinnulausir eða 42% þeirra sem voru á atvinnuleysisskrá. Um 5.500 manns sem hafa lokið háskólaprófi voru án vinnu, 25% af þeim sem voru á skránni. Hinir flokkarnir eru starfstengt nám á framhaldsskólastigi, stúdentspróf eða iðnnám. Aðeins 9% fólks á atvinnuleysisskrá var með próf úr iðnskóla upp á vasann.

Athygli vekur að af þeim 5.500 sem lokið hafa háskólaprófi voru 1.200 með viðskipta- eða hagfræðimenntun. Sverrir segist ekki upplifa að það sé offramboð af viðskipta- og hagfræðingum eða lítil eftirspurn eftir slíkri menntun. Aftur á móti vanti alltaf sérfræðiþekkingu í til að mynda upplýsingatækni og framleiðslu. Því sérhæfðari sem þekkingin er, því erfiðara sé að finna fólk með slíka menntun. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Fjöldi fólks hafði atvinnu af því að þjónusta ferðamenn. Vonandi styttist í betri tíð.

Hann segir að það sé verið að ráða í alls kyns störf, svipað og fyrir einu til tveimur árum og nóg í gangi. En hann bendir á að minnihluti starfa sé auglýstur. „Allavega hvað okkur varðar. Við auglýsum kannski 20-30% af þeim störfum sem við erum að ráða í,“ segir Sverrir og bendir á að margar ástæður geti verið fyrir því að starf sé ekki auglýst heldur haft samband við ráðningarstofu sem annað hvort hefur upp á hentugum starfsmanni af skrá hjá sér eða skimi eftir réttri manneskju úr atvinnulífinu.

Hann segir að stundum þurfi að finna einhvern hratt og að það spari tíma að sleppa því að auglýsa og fara þessa leið. En ástæðurnar geta verið fleiri. „Þetta þarf að gerast fljótt. Það eru kannski ákveðnar skipulagsbreytingar í gangi sem er erfitt að tala um á ákveðnu stigi. Einhver trúnaður. Það er ekki búið að segja upp einhverjum eða eitthvað slíkt. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir þessu.“ Hann ráðleggur fólki í atvinnuleit að fylgjast vel með atvinnuauglýsingum en skrá sig jafnframt á lista hjá ráðningarfyrirtæki. 

ragnhildurth's picture
Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV