Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fegin að „þurfa ekki að taka þátt í þessu rugli lengur“

Mynd með færslu
 Mynd:  - AP

Fegin að „þurfa ekki að taka þátt í þessu rugli lengur“

05.03.2021 - 09:30
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, Ólympíufari og fyrrum spjótkastari, er harðorð um stöðu frjálsíþróttafólks á höfuðborgarsvæðinu. Ásdís tjáir sig í kjölfar frétta um að frjálsíþróttafólk sem æfir í Laugardalshöll muni missa æfingaaðstöðu sína í 6 vikur í vor.

RÚV hefur fjallað um málið undanfarið en eitt stærsta rafíþróttamót heims verður haldið í Laugardalshöll í maí sem veldur því að frjálsíþróttafólk sem æfir í höllinni getur ekki æft þar á þeim tíma en ekki er önnur aðstaða í sama gæðaflokki á höfuðborgarsvæðinu. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, spretthlaupari, sagði málið taka mikið á sig og draga úr vonum hennar um að komast á Ólympíuleika.

Ásdís segir málið eina mestu vanvirðingu við frjálsar íþróttir sem hún hefur orðið vitni að. „Og hef ég nú séð ýmislegt á mínum 20 ára ferli! Þið afsakið en nú bara get ég ekki haft hljótt,“ skrifar Ásdís. Þá skrifar hún jafnframt að hún sé fegin að vera flutt og hætt en Ásdís er búsett í Svíþjóð og lagði skóna á hilluna síðasta haust.

„Eins vænt og mér þykir nú um íþróttina mína og eins mikið og ég finn til með þeim ca 900 íþróttamönnum á öllum aldri sem hafa enga æfingaaðstöðu í 6 vikur útaf þessu ævintýri þá verð ég að segja að ég er guðs lifandi fegin að vera flutt og hætt og þurfa ekki að taka þátt í þessu rugli lengur.“

Hægt er að sjá pistil Ásdísar hér að að neðan.

Þetta er ein mesta vanvirðing við frjálsar íþróttir sem ég hef orðið vitni að og hef ég nú séð ýmislegt á mínum 20 ára...

Posted by Ásdís Hjálms Annerud on Thursday, March 4, 2021