
Í frumvarpinu er kveðið á um eins konar hæfnismat fyrir frambjóðendur til að tryggja þjóðholla stjórn í Hong Kong. Fréttastofan AFP hefur eftir Willie Lam, sérfræðingi við Kínverska háskólann í Hong Kong, að verði frumvarpið samþykkt verði öll andstaða þar þögguð niður og í raun þurrkuð út. Búist er við að frumvarpið verði samþykkt í næstu viku.
Hert var verulega að lýðræðissinnum með öryggislögum sem samþykkt voru á síðasta þingi, en síðast í gær var verið að dæma fólk í fangelsi fyrir brot á þeim lögum, þar á meðal fulltrúa á þingi Hong Kong.
Um þrjú þúsund fulltrúar eru við þetta árlega þinghald, sem nú fer öðru sinni að miklu leyti fram í gegnum fjarfundabúnað vegna kórónuveirufaraldursins. Á þinginu á meðal annars að leggja fram nýja fimm ára áætlun þar sem áhersla verður lögð á rannsóknir og þróun.
Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, fjallaði um efnahagsmál í setningarræðu sinni í morgun og sagði stefnt að meira en sex prósenta hagvexti í Kína á þessu ári. Samkvæmt kínverska fjármálaráðuneytinu verða útgjöld til her- og varnarmála aukin um 6,8 prósent á árinu.