Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enn þrengt að lýðræðissinnum í Hong Kong

05.03.2021 - 12:00
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína
epa09053086 Security officials wearing protective face masks stand guard in front of the Great Hall of the People prior to the opening session of the National People?s Congress (NPC), in Beijing, China, 05 March 2021. China holds two major annual political meetings, The National People?s Congress (NPC) and the Chinese People's Political Consultative Conference (CPPCC) which run alongside and together known as 'Lianghui' or 'Two Sessions'.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
Þjóðarhöllin í Peking þar sem þing var sett í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Árleg samkoma kínverska þingsins var sett í morgun og stendur í eina viku. Athygli hefur vakið frumvarp, sem lagt var fram í morgun, um frambjóðendur til þings í Hong Kong og er talið munu torvelda lýðræðissinnum að komast þar að.

Í frumvarpinu er kveðið á um eins konar hæfnismat fyrir frambjóðendur til að tryggja þjóðholla stjórn í Hong Kong. Fréttastofan AFP hefur eftir Willie Lam, sérfræðingi við Kínverska háskólann í Hong Kong, að verði frumvarpið samþykkt verði öll andstaða þar þögguð niður og í raun þurrkuð út. Búist er við að frumvarpið verði samþykkt í næstu viku.

Hert var verulega að lýðræðissinnum með öryggislögum sem samþykkt voru á síðasta þingi, en síðast í gær var verið að dæma fólk í fangelsi fyrir brot á þeim lögum, þar á meðal fulltrúa á þingi Hong Kong.

Um þrjú þúsund fulltrúar eru við þetta árlega þinghald, sem nú fer öðru sinni að miklu leyti fram í gegnum fjarfundabúnað vegna kórónuveirufaraldursins. Á þinginu á meðal annars að leggja fram nýja fimm ára áætlun þar sem áhersla verður lögð á rannsóknir og þróun.

Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, fjallaði um efnahagsmál í setningarræðu sinni í morgun og sagði stefnt að meira en sex prósenta hagvexti í Kína á þessu ári. Samkvæmt kínverska fjármálaráðuneytinu verða útgjöld til her- og varnarmála aukin um 6,8 prósent á árinu.