Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ekki refsivert að fara með börn úr landi í óþökk feðra

Mynd með færslu
 Mynd: Kveikur - RÚV
Kona sem flutti með tvö börn sín úr landi þrátt fyrir andstöðu feðra þeirra gerðist ekki sek um refsivert brot. Þetta er niðurstaða Landsréttar sem staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykjaness. Héraðssaksóknari ákærði konuna fyrir hegningarlagabrot. Landsréttur segir hins vegar í dómi sínum að barnalög séu á sviði einkaréttar, því hefði konan ekki brotið af sér í skilningi refsilaga heldur væri einungis hægt að reka slík mál á sviði einkaréttar.

Konan flutti úr landi með börnin þegar hún fór í nám erlendis. Hún leitaði eftir samþykki föður annars barnsins, þar sem þau fara sameiginlega með forsjá, en hann lagði sig upp á móti því að hún flytti úr landi með barn þeirra. Konan taldi sig ekki þurfa á samþykki föður hins barnsins að halda því hún færi með forsjá samkvæmt samningi foreldranna. Hún upplýsti hann um fyrirhugaða flutninga en hann lagðist gegn þeim. Þrátt fyrir andstöðu beggja manna flutti konan úr landi með börnin þar.

Landsréttur sýknaði konuna af ákæru héraðssaksóknara, líkt og Héraðsdómur Reykjaness hafði gert áður. Dómurinn sagði að konan kunni að hafa brotið gegn rétti þess föður sem fór sameiginlega henni með forræði barns þeirra. Það væri þó einkaréttarmál en ekki refsiréttarmál að skera úr því. Þess vegna var konan sýknuð af ákærunni og ríkið dæmt til greiðslu málsvarnarlauna lögmanns hennar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV