Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eins og risastórt blað á tveggja kílómetra dýpi

Mynd: Háskóli Íslands - Kristinn In / Háskóli Íslands - Kristinn In
Jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands segir að líkön sem unnin voru úr gervihnattamyndum og með GPS-mælingum sýni að kvika í kvikuganginum undir Fagradalsfjalli sé á um tveggja kílómetra dýpi.

„Í stuttu máli þá halda jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar áfram með svipuðum hætti og þessi kvikugangur sem hefur verið í umræðunni, við teljum að hann haldi áfram að þróast þarna á svæðinu á milli Fagradaslfjalls og Keilis,“ Segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur. 

Á fundi vísindaráðs var farið yfir túlkun á gögnum sem vísindamenn hafa um jarðskorpuhreyfingar síðustu daga, meðal annars gervihnattamyndir og GPS-mælingar á jörðu niðri.

„Nú er búið að fara betur yfir þessi gögn og útbúa líkön til að reyna að skýra þær hreyfingar sem við sjáum á yfirborði. Við sjáum bæði ris og sig og láréttar hreyfingar. Þetta reynum við að fella allt í eitt líkan þar sem það er ein uppspretta í jarðskorpunni sem getur útskýrt þessar hreyfingar. Þá fáum við það staðfest að það er kvikugangur á þessu svæði, svona frá miðju Fagradalsfjalli í átt að Keili. Hann liggur nær lóðrétt í jarðskorpunni og líkönin okkar áætla að hann nái upp á um 2 kílómetra dýpi. Þar fyrir neðan hafa orðið um eins meters opnun allt niður á um 5 km dýpi í jarðskorpunni. Þetta þýðir að í umbrotunum hefur kvikan náð mjög nálægt yfirborði. Það vantar bara seinustu 2 km til að hún komist upp á yfirborð. Þess vegna er tímabil sérstakrar aðgæslu þegar þessi kvikugangur heldur áfram að þróast,“ segir Freysteinn.

„Þegar við tölum um kvikugang þá getum við ímyndað okkur pappírsblað sem stendur lóðrétt í jarðskorpunni. Þannig eru víddirnar á þessum gangi, hann er um 6 kílómetra langur, um 3 kílómetrar á hæð þar sem efra yfirborð á honum liggur á um tveggja kílómetra dýpi og hann er , að því að við teljum, um eins metra breiður,“ segir Freysteinn.

Þó að tveggja kílómetra dýpi kunni að hljóma mikið, þá er það grunnt í jarðfræðilegu samhengi.  Viðtal í heild við Freystein má heyra í spilaranum hér að ofan.