Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Áfram þarf að gera ráð fyrir hugsanlegu gosi

05.03.2021 - 10:27
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þrátt fyrir að dregið hafi úr líkum á að gos hefjist á næstu klukkustundum þarf áfram að gera ráð fyrir að gos geti brotist út. „Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar þeir mælast,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Í gær mældust um 3.000 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 700 skjálftar mælst. Í heildina hafa rúmlega 20.000 jarðskjálftar mælst síðan jarðskjálftahrinan á Reykjanesskaga hófst fyrir viku síðan. Mesta virknin eftir miðnætti er bundin við Fagradalsfjall og hefur færst aðeins í norðausturátt, miðað við virkni í gær.

Alls hafa fimm jarðskjálftar að stærð 3 eða stærri mælst nærri Fagradalsfjalli frá miðnætti. Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í morgunfréttum að óróapúlsinn sem mældist á Reykjanesskaga á miðvikudag væri yfirstaðinn. Mikil skjálftavirkni væri þó enn á svæðinu.

Vísindaráð almannavarna kemur saman í hádeginu í dag, fer yfir nýjustu gögn og metur stöðuna.

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands