Vilja Latarbæjarsafn og veitingastað í Borgarbyggð

Mynd með færslu
 Mynd: Latibær

Vilja Latarbæjarsafn og veitingastað í Borgarbyggð

04.03.2021 - 23:33

Höfundar

Byggðarráð Borgarbyggðar fól í dag sveitarstjóra að vinna áfram með forsvarsmönnum fyrirtækisins Upplifunargarður Borgarness vegna lóðar fyrir starfsemi sem byggð yrði á hugmyndafræði Latabæjar. Lóðin þarf að bera 2.000 fermetra hús auk útiaðstöðu og möguleika á frekari stækkun seinna. Þar yrði safn, studio og veitingastaður.

Fram kemur í umsókninni að undirbúningur hafi staðið í þrjú ár með Magnúsi Scheving, höfundi Latabæjar og fleirum. Og að nú séu taldar miklar líkur á því að þetta verði að veruleika.

Hægt verði að byggja upp sterkt fyrirtæki á næstu árum sem skapi fjölmörg störf og eigi sér enga hliðstæðu á Íslandi. Aðstandendur telja að uppbyggingin myndi efla mjög afþreyingarmöguleika í héraðinu.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi byggðarráðs í morgun. Í bókun ráðsins segir að þetta sé áhugavert verkefni og það hafi fullan hug á því að vinna að framgangi verkefnisins.  Var sveitarstjóra því falið að vinna áfram með forsvarsmönnum að finna lóð.

Hugmynd um Latabæjar-safn hefur verið lengi verið á teikniborðinu. Fyrir sjö árum bauðst Garðabæ að þiggja leikmunina sem notaðir voru við tökur á þáttunum hér á landi. Þá var hugmyndin um að nýta þá til að opna einhvers konar afþreyingar-og skemmtigarð. 

Framleiðslu þáttanna  hér á landi var hætt árið 2014.  Á lista Newsweek, sem birtur var í desember, var þátturinn Draumalið Glanna glæps, á lista yfir bestu stöku sjónvarpsþætti allra tíma. Þetta var næstsíðasti  þátturinn þar sem Stefán Karl Stefánsson heitinn fór á kostum í hlutverki Glanna. 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Latibær á meðal 20 bestu sjónvarpsþátta allra tíma

Mannlíf

Íhuga skemmtigarð um Latabæ í Garðabæ